Skip to main content

Í dag 20. desember opnar Grænfáninn á Íslandi nýja heimasíðu sem kallast Menntun til sjálfbærni.

Á heimasíðunni eru upplýsingar um Grænfánann, Umhverfisfréttafólk og menntun til sjálfbærni. Heimasíðan er lifandi vefur, þar sem  bætt er inn nýju efni reglulega t.d. í upphafi nýs árs verður sett inn valdeflandi fræðsluefni um menntun til sjálfbærni fyrir kennara og nemendur.

Síðan er hentug fyrir skólana til þess að finna upplýsingar um Grænfánaverkefnið. Kennarar geta nýtt sér fjölbreytt efni hennar í kennslu sem og nemendur fundið þar margvíslegan fróðleik og hugtakalista sem gæti nýst mjög vel þegar vinna á með flókin hugtök sem tengjast umhverfismálum.

Á síðunni eru ferlar Grænfánans útskýrðir á aðgengilegan hátt m.a. er gefið dæmi um greinagerð og endurgjöf, tilgangurinn er að einfalda skýrslugerð og gera framsetningu skýrari. Þetta má sjá undir grænfánagögn.

Helstu upplýsingar um Umhverfisfréttafólk er einnig að finna á síðunni, tilvalið er að minna kennara á unglinga- og framhaldsskólastigi á keppnina sem Landvernd heldur á hverju vori.

Grænfáninn hefur m.a annars það hlutverk að leiða skóla í faglegri og árangursríkri vinnu með sjálfbærni í víðum skilningi að leiðarljósi, í sterkum tengslum við áherslur aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla, grunnþætti menntunar sem þar eru skilgreindir, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og aðra alþjóðlega samninga á borð við Barnasáttmálann. Þessum atriðum og tengslum eru gerð góð skil á nýrri síðu.

Menntateymi Landverndar vonast til að heimasíðan nýtist sem flestum og sé aðgengileg. Allar ábendingar eru vel þegnar hvort sem það er um efni eða eitthvað sem þið finnið ekki. En á fyrstu mánuðum nýs árs mun bætast við nýtt efni í bland við það sem verður fært af gömlu síðunni.