Verkefni

Það getur verið erfitt að hugsa sér hvernig menntun til sjálfbærni getur tengst inn í daglegt skólastarf. Þá er gott að hugsa til þeirra kennslustunda þar sem náttúrufræði, umhverfismál, samfélagsmál eða efnahagsmál eru til umfjöllunar. Menntun til sjálfbærni á erindi í allar kennslustundir. En hverju þarf þá að breyta og bæta við það sem nú er, til þess að fá víðara sjónarhorn, betri tengingu við sjálfbæra þróun og virkari þátttöku nemenda? Hvernig er hægt að stuðla að valdeflingu nemenda?

Mikilvægt er að hafa í huga að menntun til sjálfbærni næst ekki með því að vinna eitt verkefni heldur er það kennsluaðferð sem tengist öllu námi.

UNESCO leggur áherslu á það að nálgast menntun til sjálfbærni á þann hátt að allur skólinn sé þátttakandi og þurfi að gangast undir breytingar í takt við markmið menntunar til sjálfbærni (whole-institution approach).

Skólinn og starfsmenn hans þurfa að vera góð fyrirmynd og fara eftir gildum og viðmiðum sjálfbærrar þróunar og að gefa nemendum möguleika og tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og vera virkir. Alveg eins og stendur í aðalnámskrá að grunnþættirnir eigi að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Ekki síst þess vegna er svo mikilvægt að það séu til verkfæri og farvegur sem gera skólum, starfsmönnum og nemendum kleift að efla getu sína til aðgerða. Alþjóðlega verkefnið Eco-schools  Grænfánaverkefnið er slíkur farvegur og tæki.

Grænfáninn

Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt Skóla á grænni grein sem helsta innleiðingartæki fyrir menntun til sjálfbærni í heiminum. Grænfáninn er útbreiddasta viðurkenning sinnar tegundar í heiminum og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education (FEE). Víðs vegar um heiminn taka núna um 59 þúsund skólar í 74 löndum þátt í verkefninu og á Íslandi um 200 skólar á öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla en einnig vinnuskólar og félagsmiðstöðvar. Hérlendis er verkefnið rekið af umhverfisverndarsamtökunum Landvernd.   Skólar í verkefninu þurfa að ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Landvernd veitir bæði aðstoð og eftirlit með starfseminni og miðlar af mikilli þekkingu og reynslu um verkefni, kennsluefni og kennsluaðferðir til þátttökuskóla.

Skólar á grænni grein veitir þar með svör við óskum kennara um markvissa og faglega aðstoð, stuðning, hvatningu, verkefni og kennsluefni og er þar með mikilvæg leið fyrir skóla til að vinna eftir skilgreiningum aðalnámskrár.

Grænfánaverkefnið byggir á hugmyndafræði menntunar til sjálfbærni. Nemandinn er í brennidepli þannig að aðferðirnar eru mjög þátttökumiðaðar og einnig fjölbreyttar og þverfaglegar. Þetta er valdeflandi nálgun og nemendur eiga að fást við raunverulegar áskoranir sem eru bæði tengdar við þeirra eigið líf, skólann og síðan nærsamfélagið. Jafnframt eru málin tengd við hnattrænar áskoranir og hnattræn vitund er þjálfuð. Staða mála er metin, gildi og viðhorf eru skoðuð með gagnrýninni hugsun og nemendur eru hvattir til að hugsa út fyrir rammann á skapandi hátt og hafa áhrif á breytingar, helst kerfisbreytingar. Með því að upplýsa og fræða aðra er verið að hafa áhrif víða í skóla og nærsamfélagi. Grænfánaverkefnið eflir getu nemenda og starfsfólks til aðgerða.  Bæði grunnþættir aðalnámskrár og heimsmarkmið SÞ eru tengd við alla þætti grænfánaverkefnisins.

Aðrar stefnur í skólum

Fleiri verkefni eða stefnur styðja við menntun til sjálfbærni í skólum landsins. Það eru til dæmis heilsueflandi skólar, UNESCO skólar, réttindaskólar UNICEF, Græn skref, Cittaslow hreyfingin og barnvæn sveitarfélög. Þessi verkefni eða stefnur taka a.m.k. á hluta af málefnum sjálfbærrar þróunar og notast við nemendamiðaða nálgun og valdeflingu. Mjög vel hefur reynst að vinna þessi verkefni með Grænfánaverkefninu og þar sem það eru mikil samlegðaráhrif.

Texti upp úr væntanlegri handbók um menntun til sjálfbærni eftir Guðrúnu Schmidt