Skip to main content

Dagana 26. og 27. september voru haldnir landshlutafundir Grænfánans á Austurlandi. Fundirnir eru ætlaðir Grænfánaskólum á svæðinu, auk þess sem skólar sem hafa áhuga er velkomið að senda sinn fulltrúa. Þetta eru fyrstu landshlutafundir Grænfánans á skólaárinu 2023-24.

Fyrri daginn var haldinn fundur í leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ, tileinkaður leikskólastiginu. Þá mættu áhugasamir fulltrúar leikskólanna, sumir með mikla reynslu af Grænfánastarfinu, en aðrir að taka sín fyrstu skref. Þátttakendur fengu fræðslu um Grænfánann, menntun til sjálfbærni og hvernig sú aðferðafræði birtist á fjölbreyttan hátt í leikskólastarfi.

Guðmunda Vala Jónasdóttir leikskólastjóri á Hádegishöfða sagði frá nýrri leikskólabyggingu og hvernig áherslur á umhverfis- og sjálfbærnimál hafði áhrif á hönnun og skipulag hennar. Allt frá vali á húsgögnum og leikföngum yfir í skipulag leikskólalóðar, lögð var áhersla á mikla náttúrutengingu á lóðinni. Í lok dagsins var námsefni leikskóla kynnt. Farið var út í fjölbreytta leiki og verkefni unnin tengd náttúru og umhverfi.

Á fundinum voru góðar umræður á milli fulltrúa skólanna, en eitt  af markmiðum landshlutafunda er einmitt að skapa vettvang til þess að bera saman bækur og deila fróðleik og reynslu.

Seinni daginn var fundurinn tileinkaður eldri skólastigum, haldinn í Brúarársskóla. Í ár var sú nýjung á landshlutafundum að nemendum á unglingastigi og í framhaldsskólum var boðið að mæta á Loftslagsþing Grænfánans. Flestir nemendur á þinginu eru í umhverfisnefnd í sínum skóla.

Fyrir hádegi var nemendum og kennurum skipt upp. Nemendur fengu fræðslu um stöðu loftslagsmála, rætt var hvernig einstaklingar geta haft áhrif og einnig hversu mikla ábyrgð stjórnvöld bera. Nemendur voru  áhugasamir og vel með á nótunum og höfðu margt til málanna að leggja. Farið var í fjölbreytta leiki þar sem nemendur skoðuðu m.a. eigin hegðun og hugsanir er tengjast umhverfismálum. Kennarar fengu fræðslu um Grænfánann og fyrirlestur um hvað felst í menntun til sjálfbærni og hvernig slík menntun birtist á eldri skólastigum. Þórey Eiríksdóttir, kennari í Brúarársskóla sagði frá áhugaverðu kennslufyrirkomulagi í skólanum, þar er unnið í þverfaglegri þemakennslu, hún ræddi hvernig slíkt kennslufyrirkomulag hentar vel með Grænfánavinnunni.

Eftir hádegi voru kennarar og nemendur saman á Loftslagsþinginu. Þar var unnið í ákveðnum skrefum að framtíðarsýn, markmiðssetningu, aðgerðaráætlun og hvaða aðgerðir skólar og einstaklingar geta gert til að minnka vistsporið og stuðla að betri heim.Það er óhætt að segja að Loftslagsþingið heppnaðist mjög vel, þátttakendur voru virkilega áhugasamir og hugmyndaríkir í verkefnavinnu og umræðum. Það var frábært að sjá hvað unga fólkið er meðvitað og tilbúið að berjast fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Það kom okkur í menntateyminu þó ekki á óvart, því við höfum oft áður séð í heimsóknum okkar í skóla hversu mikill kraftur býr í unga fólkinu okkar.

Höldum áfram að valdefla skólasamfélagið í umhverfis- og sjálfbærnimálum með aðstoð Grænfánaverkefnisins

Næstu landshlutafundir eru áætlaðir í haust á Vestfjörðum, en í öðrum landshlutum næsta vor.

kennarar í verkefnavinnu
Skólastjóri segir kennurum frá
Stafrófsleikur á pappaspjaldi
Nemendur hlusta á fyrirmæli
Guðrún Schmidt heldur fyrirlestur