Menntun til sjálfbærni

Menntun til sjálfbærni er vegferð í átt að betri framtíð fyrir allar lífverur og þessi vegferð byrjar hér og nú. Kennarar eru áhrifamiklir talsmenn og frumkvöðlar til að þróa og framkvæma menntun til sjálfbærni og gegna þannig lykilhlutverki. Menntun til sjálfbærni er ekki bundin við einstaka greinar eða áfanga heldur tengist aðkomu alls skólasamfélagsins. Markmiðið með menntun til sjálfbærni er að auka og efla gildi, hæfni og getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Tilgangurinn er umbreyting samfélagsins.

Menntun til sjálfbærni er valdeflandi og umbreytandi ferli sem á ekki einungis að hafa áhrif á lífsstíl einstaklinga heldur á hún einnig að efla hvert og eitt okkar til að taka virkan þátt í þeim stóru breytingum sem þurfa að eiga sér stað innan samfélaga, breytingum sem lúta að kerfi, lögum, reglum, samningum og aðgerðamöguleikum. Þannig er eitt af mikilvægustu markmiðum með menntun til sjálfbærni að gera nemendum kleift að taka virkan þátt í mótun nútíðar og framtíðar.

Lykilatriði í menntun til sjálfbærni er að nota þátttökuhvetjandi, uppbyggjandi, leitandi og nýstárlegar kennsluaðferðir. Menntun til sjálfbærni hjálpar nemendum við að uppgötva vandamálin og skilja af hverju þau eru til staðar og síðan að finna lausnir og breyta þeim í aðgerðir. Nemendur eiga að læra að taka upplýstar ákvarðanir um það að lifa á ábyrgan hátt gagnvart náttúrunni og í réttlátu samfélagi fyrir núverandi og komandi kynslóðir, með virðingu fyrir menningarlegum fjölbreytileika. Slík menntun byggir á kenningu hugsmíðahyggju þar sem litið er á lærdóm sem virkt samsetningar- og uppbyggingarferli sem á sér stað á grunni eigin aðgerða og reynslu með nána tengingu við eigið líf og umhverfi. Hlutverk kennara er að vera leiðbeinandi og leiðtogi, ekki „bílstjóri“ heldur „hvetjandi ferðafélagi“.

Menntun til sjálfbærni miðlar nemendum bæði nauðsynlegri þekkingu til að skilja sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin og eflir ýmsa lykilhæfni til þess að geta tekið virkan þátt sem upplýstir borgarar sem vilja þróa áfram umbreytingu samfélags í átt að sjálfbærri þróun. Þessi hæfni miðar m.a. að því að styrkja einstaklinga til að ígrunda og meta eigin gjörðir með hliðsjón af núverandi og komandi áhrifum á náttúru, samfélag, menningu og efnahag bæði frá staðbundu og hnattrænu sjónarhorni. Einstaklingar eiga að geta brugðist við flóknum aðstæðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og þróað og skapað nýjar hugmyndir og nálganir og tekið virkan þátt í samfélagslegum og stjórnmálalegum ferlum með það að markmiði að færa samfélög sín í átt að sjálfbærri þróun. Ýmis hæfni hefur verið nefnd í þessu samhengi og mismunandi kenningar hafa verið þróaðar en flestar innihalda þó m.a. hæfni til:

virkrar þátttöku,

gagnrýninnar hugsunar,

að skilja flókin viðfangsefni,

þverfaglegrar hugsunar,

samskipta og samvinnu,

lýðræðisþátttöku,

að leysa ágreining og/eða vandamál,

að komast að niðurstöðu um álitamál,

skapandi hugsunar,

samkenndar,

réttlætiskenndar,

að átta sig á eigin ábyrgð.

Að efla alla þessa lykilhæfni er síðan grundvöllur til þess að nemendur geti öðlast getu til aðgerða. Segja má að geta til aðgerða sé aðalmarkmiðið og lykilhugtak í menntun til sjálfbærni. Í stuttu og einföldu máli er geta til aðgerða hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem ósjálfbær þróun veldur til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga.

Áherslan er á virka þátttöku nemenda í aðgerðum sem stuðla að sjálfbærri þróun. Það þarf að efla nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og virkri þátttöku í samfélaginu. Það er m.a. gert með því að þjálfa þau í að taka upplýstar ákvarðanir, skilgreina leiðir og framkvæma þær varðandi raunverulegar áskoranir sem tengjast eigin samfélagi og jafnvel eigin lífi. Nemendur eiga að fá tækifæri til þess að rannsaka og rýna, finna lausnir og taka síðan virkan þátt í að breyta því sem er innan færis hvers og eins eða hópsins. Með getu til aðgerða öðlast nemendur kjark, færni, getu og vilja til að hafa áhrif og grípa til aðgerða og verða meðvitaðir um þennan mátt sinn og getu. Geta til aðgerða eflir nemendur til þess að vera virkir samfélagsþegnar sem gera sér grein fyrir því að þeir hafa völd til þess að breyta sjálfum sér, hafa áhrif á aðra og framkvæma með það í huga að umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri þróun.

Umhverfismennt og menntun til sjálfbærni

Oft ríkir sá misskilningur að menntun til sjálfbærni sé það sama og umhverfismennt og margir tengja það að mestu leyti við kennslu um umhverfið og væntumþykju á náttúrunni. Það er hins vegar ekki nóg til að menntunin hafi nægilega mikil áhrif sem umbreytandi afl. Umhverfismennt er mikilvægur hluti af menntun til sjálfbærni en það síðar nefnda er miklu víðari menntastefna á öllum sviðum.

Ýmsar rannsóknir m.a. í umhverfisfélagsfræði hafa leitt í ljós að fólk sem hefur snemma á lífsleiðinni fengið margbreytilega og jákvæða reynslu af náttúruupplifunum mun á fullorðinsárum hafa vernd umhverfisins frekar í huga í ákvörðunum sínum og gjörðum. En því miður er samt oft lítil samsvörun milli aukinnar umhverfisvitundar og umhverfisvænni lifnaðarhátta. Hins vegar virðist fólk sem er virkt í umhverfismálum hallast oft meira að öðrum gildum en t.d. efnis- og einstaklingshyggju. Þetta undirstrikar að umhverfismennt er mikilvæg frá blautu barnsbeini m.a. til þess að stuðla að umhverfisvitund en það eitt og sér er ekki nóg heldur þarf síðan að vinna í því að efla ákveðin gildi í samfélögum eins og t.d. nægjusemi, réttlætiskennd og umhyggju til þess að ná fram varanlegum og raunverulegum breytingum. Hér kemur menntun til sjálfbærni sterk inn því hún á að stuðla að slíkum breytingum á gildum og hegðun.

 

Horfa þarf á umhverfismennt og menntun til sjálfbærni sem eina heild, umhverfismennt sem mikilvægan grunn og menntun til sjálfbærni sem framhald og útvíkkun.

Texti upp úr handbók um menntun til sjálfbærni eftir Guðrúnu Schmidt