Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun krefst þess að fólk geti mætt frumþörfum sínum og að fátækt fólk hafi tækifæri til að eignast betra líf. Einnig kallar hún á sanngjarna skiptingu á auðlindum Jarðar innan og á milli kynslóða.

Til þess að komandi kynslóðir geti nýtt auðlindir Jarðar liggur í augum uppi að við þurfum að nýta þessar auðlindir á þann hátt að náttúruleg endurnýjun þeirra geti átt sér stað þannig að við megum hvorki ofnýta, menga eða eyðileggja auðlindirnar. Staðan er því miður ekki þannig í dag og höfum við farið yfir þolmörk náttúrunnar í áratugi.

Þróun felur í sér að samfélög geti og eigi að breytast, eins og t.d. að fátæk lönd geti þróast í átt að meiri velsæld. Orðið þróun skiptir líka máli í samhengi við menntun til sjálfbærni því það gerir okkur ljóst að við verðum að mennta nýja kynslóð með það að markmiði að hún hafi getu til þess að þróa og breyta núverandi lifnaðarháttum í átt að sjálfbærri þróun.

Orðið sjálfbærni er oft notað í daglegu tali en því miður stundum misnotað og misskilið. Sjálfbærni er það ástand sem ætlast er til að ná með sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun er þar með þróun sem leiðir til meiri sjálfbærni. En slíku ástandi er ekki hægt að ná í eitt skipti fyrir allt heldur er það áframhaldandi ferli með sífellt nýjum áskorunum. Því má helst segja að orðið sjálfbærni sé leiðandi hugtak, sem leiðir til þess ástands sem við viljum fá og sem þarf stöðugt að vinna að.

Einkenni sjálfbærrar þróunar

Til eru nokkur mikilvæg aðaleinkenni sem fléttast saman inn í hugtakið og skilgreiningu á sjálfbærri þróun og eru órjúfanlegir hlutar hennar.

Réttlæti innan og milli kynslóða og bæði milli landa og innan hvers lands. Réttlæti er bæði markmið og forsenda fyrir sjálfbærri þróun.

Siðferðislegur grunnur. Sem dæmi þá byggist réttlæti og ábyrgðartilfinning okkar gagnvart náttúrunni og öðru fólki á gildum okkar og viðmiðum.

Heildstæð sýn. Allar gjörðir mannkyns í daglegu lífi eru fléttaðar saman í flóknu neti af orsökum og afleiðingum innan þriggja stoða sjálfbærrar þróunar (náttúra, samfélag og hagkerfi). Lausnir þarf að skoða á heildstæðan og þverfaglegan hátt þar sem tekið er tillit til samhengis orsaka og afleiðinga og reynt að vinna með rót vandans.

Alþjóðleg nálgun. Hnattvæðing hagkerfis, hnattræn umhverfisvandamál/-hamfarir, ójöfnuður o.fl. fléttast saman og það þarf samvinnu þjóða til þess að takast á við verkefnið.

Þátttökunálgun. Sjálfbær þróun krefst þátttöku alls samfélagsins og einstaklingar geta haft mikil áhrif í sínu nærsamfélagi.

Ný hagfræðileg nálgun er nauðsynleg. Mælt er gegn því að nota hagvöxt sem vísi að velgengni þjóða.

Framtíðarsýn. Það þarf að horfa á sjálfbæra þróun sem framtíðarsýn sem vísar okkur leiðina þangað.

Grunnstoðir og einkenni sjálfbærrar þróunar

Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Menntun til sjálfbærni þarf því að byggjast á þverfaglegri kennslu og nálgun þessara þriggja stoða.

Mismunandi nálganir hafa verið notaðar sem lýsa afstöðu milli grunnstoðanna. En þar sem auðlindir Jarðarinnar eru takmarkaðar er nálgunin eins og hún er sett fram í myndinni hér fyrir neðan að halda vel utan um hugtakið sjálfbæra þróun.

Takmarkaðar auðlindir Jarðar, náttúran, mynda lokuð kerfi sem samfélagið og hagkerfið eru hluti af. Innan náttúrunnar hefur maðurinn skapað samfélagið og hagkerfið hefur hann mótað innan samfélagsins. Það er því ljóst að hagkerfið verður að taka mið af þeim gildum sem móta gott samfélag og samfélagið þarf að laga sig að þeim kerfum og lögmálum sem náttúran setur. Það er grundvallaratriði og þar með nauðsynlegt að mannkynið virði náttúruna og athafni sig innan hennar takmarkana.

 

Í Brundtland-skýrslunni frá árinu 1987 kom skýrt fram að hagvöxtur ætti hvorki að vera mælikvarði á velgengni þjóðar né markmið þjóðar heldur þurfi að nota aðra mælikvarða. Hagkerfið á ekki að vaxa að umfangi, heldur að gæðum þannig að framtíð samfélaga sé ekki stefnt í hættu.

Texti upp úr væntanlegri handbók um menntun til sjálfbærni eftir Guðrúnu Schmidt