Skip to main content

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru skólar hvattir til þess að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Skólar eru hvattir til að gera deginum hátt undir höfði og nýta sér verkefni í tengslum við daginn sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms hjá Reykjavíkurborg hafa lagt til.

Á Degi íslenskrar náttúru fögnum við mikilfengleika og mikilvægi íslenskrar náttúru. Um leið höldum við upp á tilvist náttúru allrar jarðarinnar, því náttúran er alls staðar og á sér engin landamæri. Í byggð hefur náttúrunni verið umbreytt, hún manngerð og mótuð að þörfum manna og smekk en víða er stutt í tiltölulega lítt röskuð svæði.

Stafróf náttúrunnar er einfalt en skemmtilegt útiverkefni sem miðar að því að auka umhverfis- og náttúruvitund barna og auka á orðaforða þeirra á náttúrulegu nærumhverfi sínu. Verkefnið er gert fyrir öll stig grunnskóla og hentar vel til að vera unnið í litlum og jafnvel aldursblönduðum hópum.

Við hvetjum alla skóla til að halda Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan og vonumst til að sem flestir nýti sér Stafróf náttúrunnar til að njóta dagsins og vekja athygli á fjölbreytileika náttúru og nærumhverfis. Skólar eru enn fremur hvattir til að deila myndum af verkefnunum með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms og er hægt að gera það með því að senda póst á netfangið urn@urn.is