Skip to main content

Dagur umhverfisins er 25.apríl og er jafnframt afmælisdagur Grænfánans á Íslandi, að því tilefni höfum við sett saman pakka með efni sem við teljum að geti nýst þeim skólum sem ætla að fagna Degi umhverfisins. Pakkinn inniheldur fjölbreytt verkefni og leiki sem tengjast umhverfinu og ættu einnig að nýtast vel á vordögum. Þið einfaldlega smellið á myndirnar til þess að nálgast efnið.

Dagur umhverfisins er tileinkaður Sveini Pálssyni lækni sem fæddist þennan dag árið 1762. Sveinn var þekktur fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur. Hann var mikill frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins, þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og þess vegna er dagur umhverfisins tileinkaður honum.

Loftlagssmiðjur – Við erum náttúra

Í nýjasta námsefninu okkar Loftslagssmiðjur má finna smiðju sem ber heitið Við erum náttúra. Smiðjan nýtist vel til þess að gefa nemendum tækifæri á að tengjast náttúrunni.

Tekið úr smiðjunni:

Náttúran er manninum mjög mikilvæg, við erum ekkert án hennar. Þess vegna þurfum við að ganga vel um hana og virða, við ættum að njóta náttúrunnar meira og nota minna. Í þessari smiðju ætlum við að minna okkur á náttúruna allt um kring, njóta og bera virðingu fyrir henni og lífbreytileika hennar.

Umhverfisleikir

Með því að leyfa nemendum að njóta útiveru og náttúru í námi erum við að ýta undir náttúruvitund nemenda og auka líkurnar á því að nemendur fari meira út í náttúruna. Þar öðlast þeir þekkingu og færni og um leið læra að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Hér má finna saman safn af umhverfisleikjum frá skólum sem taka þátt í Grænfánaverkefninu.

 

Átthagar –  nærumhverfi og nærsamfélag

Á afmælisári Grænfánans voru gefnir út pakkar með mismunandi þemum. Átthagar var eitt af þemunum og nýtist sá pakki vel þegar vinna á með nærumhverfið. Í pakkanum er myndband sem útskýrir m.a. mismunandi umhverfi og einnig fjöldi verkefna sem hægt er að vinna með í skólastofunni eða í nærumhverfinu.

Aukaefni

Hér má finna vor-bingó fyrir öll skólastigin sem send voru á skólana í tilefni 20 ára afmælis Grænfánans 2022

Við minnum svo á verkefnakistuna okkar sem er sannkallaður fjársjóður, mælum með nota leitina og t.d. velja þemað átthagar og landslag sem á vel við á Degi umhverfisins