Skip to main content

Aldur: 13-30 ára

Tími: 6-8 kennslustundir

Markmið: Er að nemandi

  • Geti greint stöðu mála og útskýrt hvað mælir með og á móti framkvæmdum á svæðinu
  • Geti tekið rökstudda afstöðu til málsins
  • Geti komið með tillögur um hvernig megi bregðast við þeim áskorunum sem málið felur í sér
  • Átti sig á gildi samábyrgðar og samvinnu í vinnu við áskoranir af þessu tagi
  • Þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum og framsögn
  • Geti sett sig í spor annarra og skilið sjónarmið sem eru ólík hans sjónarmiði

Efni og áhöld: Upplýsingar um þann stað sem í hlut á. Búningar fyrir mismunandi hlutverk.

Framkvæmd:

Nemendur fá í upphafi álitamál til að ræða um, t.d. hvort byggja eigi hótel í Vatnsmýrinni, hvort gera eigi miðhálendi Íslands að þjóðgarði eða annað hitamál sem tengist þeirra heimabyggð. Hér verður tekið dæmi um hótelbyggingu í Vatnsmýrinni.

Nemendum er skipt í hópa og fær hver hópur ákveðið hlutverk, t.d. eftirfarandi:

Framkvæmdahópur (ca. 4): Fyrirtæki sem vill byggja hótel í Vatnsmýrinni.

Búningur: Hjálmur

Hvað heita þau?

Við hvað vinna þau?

Af hverju ætla þeir að byggja hótel í Vatnsmýrinni?

Náttúruverndarsamtök (ca. 4): Samtök sem vilja hafa friða græn svæði.

Búningur: Grænfánaskikkja

Hvað heita þau?

Vilja þau hafa friðland í Vatnsmýrinni? Af hverju?

Gæsir (ca. 4): Gæsir sem verpa í Vatnsmýrinni

Búningur: Fjaðrir

Hvað heita gæsirnar?

Vilja þau fá hótel í Vatnsmýrina? Af hverju?/Af hverju ekki?

Íbúar (ca. 4): Íbúar sem búa alveg við Vatnsmýrina

Búningur: Treflar og sjöl

Hvað heita íbúarnir?

Hvað eru þeir gamlir?

Vilja þeir fá hótel í Vatnsmýrina? Af hverju?/Af hverju ekki?

Ferðamenn (ca. 4): Ferðamenn sem vilja gista á hóteli nálægt náttúrunni og miðbænum

Búningur: Húfa

Hvað heita ferðamennirnir?

Hvaðan koma þeir?

Hvað vilja þeir sjá og gera á Íslandi?

Vilja þeir fá hótel í Vatnsmýrina? Af hverju?/Af hverju ekki?

Fræðimenn (ca. 4): Dýra-, vist-, náttúrufræðingar sem hafa rannsakað lílfríkið í Vatnsmýrinni

Búningur: Hvítur sloppur

Hvað heita fræðimennirnir?

Hvað hafa þeir rannsakað?

Vilja þeir fá hótel í Vatnsmýrina? Af hverju?/Af hverju ekki?

Borgarstjóri

Búningur: Pípuhattur eða annar fínn hattur

Hóparnir afla sér upplýsinga um málefnið og kynna sér það vel, kennari getur einnig gefið þeim upplýsingar um málefnið ef tíminn er naumur.

Hóparnir ræða saman, hver í sínu lagi, og taka afstöðu til málefnisins sem þeir skrifa niður á blað. Mikilvægt er að hópurinn myndi sér sameiginlega skoðun á málefninu.

Hóparnir útbúa kynningu þar sem afstaða þeirra til málefnisins kemur fram.

Hóparnir kynna niðurstöður sínar. Hér geta skapast umræður þar sem meðlimir annarra hópa geta komið með spurningar og vangaveltur um niðurstöðuna. Mikilvægt er að umræðunum sé stýrt svo þær verði málefnalegar.

Ef niðurstaðan verður sú að allir hóparnir eru annað hvort með eða á móti má opna fyrir umræður um aðra möguleika. Hér er hægt að hafa umræðu um gildi, hvaða gildi tengjast rökunum sem þau gefa? Af hverju tóku þau þessa afstöðu?

Í lokin fara allir úr hlutverkum sínum og fram fara lýðræðislegar kosningar þar sem nemendur kjósa eftir eigin sannfæringu í málinu. Niðurstöðurnar geta verið á ýmsa vegu…

Undirbúningur kennara

Kennari aflar sér upplýsinga um þann stað sem í hlut á, hvað mælir með og gegn framkvæmdum á þessum stað? Hann útbýr einnig miða með þeim hlutverkum sem nemendur geta verið.

Undirbúningur nemanda          

Nemendur lesa sig til um málefnið áður en þeir mæta í tíma.