Skip to main content

Nægjusemi nauðsynleg, hún er jákvæð og á að vera eitt af leiðarljósum okkar til betri framtíðar. Nægjusamur nóvember hvetur okkur til að hugsa um neyslumynstur okkar, getum við orðið ábyrgir neytendur sem velja lífstíl sem er ekki á kostnað náttúrunnar og annars fólks.

Verkefni

Hvernig getum við dregið úr neyslu og kaupum á óþarfa í kringum jólin? Gjafabréf eru ein leið til þess! Samvera og ljúfar stundir.

„Betra er að gefa heldur en að þiggja“ verkefni þar sem þátttakendur öðlast skilning á því að gjafir þurfa ekki alltaf að koma beint úr búðinni og hægt er að gefa hlutum nýtt líf með því að gefa þá áfram.

Í þessu verkefni hugleiða þátttakendur hvað væru stærstu óskir þeirra fyrir Jörðina, lífríkið og mannkynið og skoða hvað þyrfti að gera til þess að þessir óskir gætu orðið að veruleika. Verkefni fyrir 8-100 ára

Þetta verkefni opnar augu þátttakenda fyrir þeim fjölda auglýsinga og markaðsetningar sem dynur á okkur alla daga. 

Verkefni þar sem velt er fyrir sér umfjöllunum sem birtast okkur í daglegu lífi og láta okkur gjarnan líða eins og okkur skorti eitthvað.

Nægjusemi frelsar okkur frá óþarfa byrði og álagi. Minni tími og pen­ingar fara í lífs­gæða­kapp­hlaup­ið, þ.e. í eig­ur, auð og álit ann­arra. Þannig er hægt að öðl­ast ýmis­legt dýr­mætt eins og frelsi, frí­tíma og orku til að verja í það sem er mik­il­vægt og veitir ham­ingju.

Þetta er stutt verkefni sem vekur okkur til umhugsunar og hvetur til umræðna um þau lífsgildi sem hver og einn vill að standa fyrir og rækta. Verkefnið fyrir 12-100 ára

„Betra er að gefa heldur en að þiggja“ verkefni þar sem þátttakendur öðlast skilning á því að gjafir þurfa ekki alltaf að koma beint úr búðinni og hægt er að gefa hlutum nýtt líf með því að gefa þá áfram.

Nemendur velta því fyrir sér hvernig við getum unnið með neysluþríhyrninginn í tengslum við jólahátíðina og stuðlað að grænum umhverfisvænum jólum. Verkefnið hentar nemendum á öllum aldri.

Hlutverkaleikur sem opnar augu nemenda á þeim áhrifum sem aukin hnattvæðing kann að hafa á matvælaframleiðslu. Nemendur eiga að átta sig á mismunandi hagsmunum og ígrunda hvernig núverandi hagkerfi ýtir undir núverandi framleiðsluhætti. Verkefni fyrir 16 – 100 ára.

Léttur leikur til að kveikja til umhugsunar og umræðna um tengsl milli neyslu og hamingju. Markmiðið er að þátttakendur velti fyrir sér að hvaða leyt hamingja þeirra tengist neysluvörum. Verkefni fyrir 8-100 ára

Hvað er eiginlega tískusóun? Jú það er einmitt þetta, að kaupa trekk í trekk föt og aðrar tískuvörur sem maður notar sjaldan eða aldrei. Fötin eru orðin einnota, alveg eins og einnota pappadiskar og plasthnífapör.

Í þessu verkefni skoða nemendur hluti með kennara og velta fyrir sér hvaðan þeir koma, úr hverju þeir eru og ræða uppruna þeirra. Jörðin veitir okkur allt sem við þurfum. Verkefni fyrir 3-10 ára.

Hversu margar jarðir kallar lífsstíll þinn á? Hve margar jarðir þyrftum við ef allir væru eins og þú? Kynntu þér málið og reiknaðu út þitt vistspor. Verkefni fyrir 13-100 ára

Horfa

Lesa

Afhverju nægjusemi?

Ljóst er að núverandi lifnaðar- og viðskiptahættir fólks í vestrænum löndum er langt umfram þolmörk náttúrunnar og auk þess á kostnað fátækari hluta heims og framtíðarkynslóða. Við erum að kalla yfir okkur loftslagshamfarir, tap á líffræðilegri fjölbreytni, hrun vistkerfa og siðferðislegar hörmungar. Nauðsynlegt er að gera róttækar breytingar í samfélögum okkar því núverandi lífsstíll er ekki framtíðarhæfur. Nægjusemi er ein af forsendum fyrir sjálfbærri þróun. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) bendir einnig á að nægjusemi er nauðsynleg ásamt fjölmörgum öðrum loftslagsaðgerðum þar sem hún mun leiða til minni eftirspurnar eftir orku, auðlindum, landgæðum og vatni. Því við framleiðslu á öllum vörum þarf auðlindir, auk þess þarf náttúran að taka við úrganginum og mengun. Nægjusemi er áhrifamikil, fljótvirk og ódýr leið til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, ósjálfbæra nýtingu auðlinda og jafnvel ójöfnuð. Ef íslensk stjórnvöld taka stefnu sína í loftslagsmálum, sjálfbærri þróun og breytingum yfir í hringrásarhagkerfið alvarlega ætti nægjusemi að rata ofarlega á blað um gildi sem mikilvægt er að stuðla að. Að minnka neyslu, framleiða gæðavörur sem endast, endurvinna og endurnýta sem mest aftur og aftur og vinna með öflugum hringrásarferlum eru m.a. einkenni hringrásarhagkerfis.

Hugarfar sem er jákvætt fyrir einstaklinga, samfélögin og umhverfið

Fyrir okkur sem fáum nóg að borða, föt, húsaskjól og búum við heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika þýðir nægjusemi ekki afturhvarf til fortíðar, að fórna einhverju eða lifa við skort. Þess í stað er það tækifæri til þess að einbeita okkur að því sem veitir raunverulega gleði, hamingju og gildi í lífinu. Við hoppum út úr kapphlaupi um gervi-lífsgæði, spyrjum okkur hvort við höfum raunverulega þörf fyrir hlutina og hættum einfaldlega að kaupa hluti sem við þurfum ekki. Mjög hjálplegt er að reyna að hunsa áreiti frá auglýsingum, hætta að horfa á það sem aðrir eiga, bera sig ekki saman við aðra heldur veita því athygli sem við höfum og vera þakklát og ánægð með það. Nægjusemi er hugarástand þar sem við finnum ekki fyrir hinum ýmsum þörfum og þurfum þá heldur ekki að neita okkur um þessar þarfir þar sem þær eru ekki til staðar. Með þessu móti sparast tími, orka og peningar sem við getum nýtt í upplifanir, samveru, slökun og að skapa gott samfélag. Við nærum líkama og sálina varanlega og frelsum okkur frá því að grípa til skyndilausna með kaupum á hlutum og stöðutáknum í kapphlaupi við aðra í gagnrýnislausri trú á loforð framleiðslu- og söluaðila.

Ímyndum okkur samfélag þar sem nægjusemi, þakklæti, virðing og umhyggja væru ráðandi, samfélag þar sem markmiðið væri að öllum liði vel og við værum hvorki að lifa á kostnað náttúrunnar né annars fólks. Þannig framtíðarsýn gefur okkur orku, getu, von og vilja til að taka þátt í að skapa svoleiðis samfélag.

Einföld og áhrifamikil leið sem við getum sameinast um

Miklar breytingar þurfa að eiga sér stað á öllum sviðum samfélaga til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum og færa okkur á braut sjálfbærrar þróunar: kerfisbreytingar, hegðunarbreytingar og hugarfarsbreytingar. Nægjusemi sem hegðunar- og hugarfarsbreyting er ókeypis og skilar strax árangri. Bara með því að hætta þátttöku okkar í neyslubrjálæði tökum við mikilvægt skref í umbreytingu samfélaga til hins betra. Við getum sameinast um nægjusemi sem einfalda og áhrifamikla leið og fagnað að slík leið er til. Ásamt fjölmörgum öðrum aðgerðum er nægjusemi nauðsynleg, hún er jákvæð og á að vera eitt af leiðarljósum okkar til betri framtíðar.

Höf­undur er Guðrún Schmidt sér­fræð­ingur hjá Land­vernd.