Skip to main content

Á degi íslenskrar náttúru minnumst við Jóns Stefánssonar, náttúruafls og kennara við Hvolsskóla, sem lést vorið 2022. Jón sinnti kennarastarfinu af óvenju mikilli alúð, eldmóði og ástríðu. Hann kynnti nemendum sínum íslenska náttúru á einstakan hátt og kenndi í leiðinni vísindalegar aðferðir.

Árið 2020 hlaut Jón heiðursviðurkenningu Skóla á grænni grein fyrir einstök störf í þágu náttúrunnar og uppbyggingar grænfánaverkefnisins í Hvolsskóla. Jón leiddi grænfánaverkefni skólans um árabil og hafa nemendur unnið fjölmörg verkefni undir hans stjórn. Sem dæmi um slík verkefni má nefna kolefnismælingar framkvæmda við Landeyjahöfn, gerð útikennslustofu, ræktun matjurta á skólasvæðinu, hænsnahald í umsjón nemenda, ánamoltu innandyra, mælingar nemenda á hopi Sólheimajökuls, umsjón með verkefninu Vistheimt með skólum innan skólans ásamt mörgu fleiru.

Landvernd kveður góðan samstarfsfélaga og vottar aðstandendum samúð.