Skip to main content

Þó það líti út fyrir að endalaust framboð sé af matvælum í heiminum er raunin ekki sú. Allur matur kemur einhversstaðar frá og Jörðin þarf að geta staðið undir lifnaðarháttum okkar.

Horfa

Lesa

Framboð af mat

Hefur þú spáð í hve magnað það er að geta farið út í búð og keypt mat frá allskonar ólíkum heimshlutum jarðarinnar?

Matur virðist vera til í ótakmörkuðu magni og valkostir okkar eru endalausir.

Kannski kaupir þú þér banana sem kemur frá Brasilíu og súkkulaðistykki frá Kanada.

Kannski fer brauð ofan í pokann sem er merkt íslenskum framleiðanda, en hvaðan kemur hveitið sem notað er í brauðið? Kínverjar eru stærstu framleiðendur hveitis í heiminum. Kemur hveitið frá þeim?

Svo flækjast málin þegar vörurnar sem við kaupum hafa mörg innihaldsefni. Kannski koma innihaldsefnin í einni vöru frá 10 ólíkum löndum.

Fyrir aðeins 10 árum höfðum ekki aðgang að svo fjölbreyttum mat. Í dag má finna nánast allt sem hugurinn girnist í verslunum landsins.

Hvernig hefur matur áhrif á umhverfið?

Þó það líti út fyrir að endalaust framboð sé af matvælum í heiminum er raunin ekki sú. Allur matur kemur einhversstaðar frá og Jörðin þarf að geta staðið undir lifnaðarháttum okkar.

Matur hefur misjafnlega mikil áhrif á loftslagsbreytingar og fer það eftir tegund fæðunnar hversu mikil áhrifin eru.
Kolefnisspor er aðferð til þess að mæla áhrif sem hlutir svo sem matur hafa á loftslagsbreytingar og það getur hjálpað okkur að sjá hversu mikil áhrifin eru af okkar neyslu. Því stærra sem kolefnissporið er, þeim mun meiri áhrif hefur maturinn á loftslagsbreytingar.

Við viljum hafa kolefnissporið sem minnst. Það þýðir ekki að við ætlum að hætta að borða eða borða minna, heldur frekar hugsa um það hvað við borðum.

Kolefnisspor kjöts er mjög stórt og þá sérstaklega nautakjöts og lambakjöts. Kolefnisspor grænmetis, bauna og kornvara er mun minna.

Eitt sem við getum gert til þess að hafa áhrif er að borða oftar þann mat sem hefur minna kolefnisspor. Það þýðir ekki að við þurfum að hætta að borða allt sem okkur þykir gott, en við getum valið að fækka þeim skiptum sem við borðum mat sem hefur stórt kolefnisspor.

Við getum prófað að halda kjötlausa mánudaga, valið grænmetisréttinn í skólanum og hvatt fólkið í kringum okkur til að hugsa um kolefnisspor matarins þegar þau versla inn fyrir heimilið.

Við getum prófað okkur áfram í að elda grænmetisrétti og hvatt skólakokkinn til þess að vinna með okkur.

Flest elskum við að borða en vissir þú að þriðjungi matvæla sem framleiddur er fyrir okkur er hent?

Fólk í ríkum löndum, eins og á Íslandi, sóar að meðaltali 100 kílóum af mat á mann á hverju ári, en í fátækari löndum er 10 kílóum á mann sóað.

Við getum öll haft áhrif

En hvað getur þú gert til þess að leggja þitt af mörkum?

Með því að draga úr matarsóun verndar þú umhverfið, ferð betur með Jörðina okkar og sparar pening.

Þú getur passað að setja ekki of mikið á diskinn – þegar þú ert í skólanum.
Þú getur reynt að henda sem allra minnst af mat.

Þú getur fengið fólkið í kringum þig með þér í að elda úr afgöngum og kaupa minna inn í einu. Þegar við borðum afganga í stað þess að henda þeim berum við virðingu fyrir jörðinni og því sem hún veitir okkur.

Það er ótal margt fleira sem hægt er að gera til þess að hafa góð áhrif. Þú getur til dæmis prófað að rækta þitt eigið grænmeti.

Þú getur óskað eftir því að skólinn þinn skoði matarsóun og kolefnisspor matarins og setji upplýsingar um það á vegg í matsal skólans.

Svo getur þú skoðað hvort að fólkið sem framleiðir matinn fái mannsæmandi laun.
Til þess að sigrast á loftslagsbreytingum þurfum við að vera meðvituð um áhrif matarins á umhverfið og grípa til aðgerða í eigin lífi. Einstaklingar leysa þennan vanda ekki einir – mikilvægt er að láta stórfyrirtæki og stjórnvöld bera ábyrgð, draga úr matarsóun og setja reglur sem hjálpar loftslaginu.

Við getum öll haft áhrif

Verkefni

Hlutverkaleikur sem opnar augu nemenda á þeim áhrifum sem aukin hnattvæðing kann að hafa á matvælaframleiðslu. Nemendur eiga að átta sig á mismunandi hagsmunum og ígrunda hvernig núverandi hagkerfi ýtir undir núverandi framleiðsluhætti. Verkefni fyrir 16 – 100 ára.

Nemendur skoða það sem mannfólkið þarfnast til að lifa og skipuleggja lítið samfélag sem hefur allt sem það þarf í litlu geimskipi. Verkefni fyrir 10-20 ára nemendur.

Nemendur læra um hringrásarhagkerfið og velta fyrir sér hringrás þeirra hluta sem þeir tengja við. Fyrir 8-16 ára.

Nemendur læra aðferðir sem hægt að er gera heima til þess að sporna gegn matarsóun. Nemendur læra um matarsóun og aðferðir til þess lágmarka hana. Verkefni fyrir 10-12 ára

Í þessum stutta leik eru nemendur að velta fyrir sér hegðun sína í daglegu lífi og hversu auðlindafrek hún er. Verkefni fyrir 12-100 ára

Þetta verkefni opnar augu þátttakenda fyrir þeim áhrifum sem þeir verða fyrir dags daglega frá markaðssetningu og auglýsingum. Verkefni fyrir 14-100 ára

Nemendur kynna sér málið og útbúa námskeið fyrir jafnaldra eða almenning. Verkefni fyrir 16-25 ára.

Nemendur læra um auðlindir og hvað það merki að þær séu endurnýjanlegar eða óendurnýjanlegar. Verkefni fyrir 13-25 ára.

Nemendur skoða nestið sitt og meta virði þess og kostnað fyrir umhverfið og náttúruna. Verkefni fyrir 14-20 ára.

Léttur leikur til að kveikja til umhugsunar og umræðna um tengsl milli neyslu og hamingju. Markmiðið er að þátttakendur velti fyrir sér að hvaða leyt hamingja þeirra tengist neysluvörum. Verkefni fyrir 8-100 ára

Grænþvottur á sér stað þegar þeirri ímynd er haldið á lofti að eitthvað sé umhverfisvænna en það raunverulega er. Þetta verkefni fær nemendur til þess að hugsa betur um hversu umhverfisvænar vörur eru raun og veru.

Verkefni sem fær nemendur til þess að skoða raunverulegar þarfir sínar,og velta fyrir sér spurningum á borð við: þurfum í raun að eiga allt sem við eigum? Verkefni fyrir 6-10 ára

Ítarefni