Skip to main content

Líffræðileg fjölbreytni eða einfaldlega lífbreytileiki, nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera sem til eru. Það er hægt að horfa á lífbreytileika á þrjá mismunandi vegu: lífbreytileika innan tegunda, milli tegunda og milli og innan vistkerfa. Endurheimt vistkerfa, einnig kallað vistheimt er góð leið til að endurheimta búsvæði og lífbreytileika og tækla loftslagsmálin með því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi.

Horfa

Lesa

Vistkerfi

Vistkerfi geta verið margskonar að stærð og lögun sem fer eftir samspili lífvera og umhverfis þeirra. Vistkerfi geta t.d. verið birkiskógur, votlendi, mói, tjörn eða fjara. Vistkerfi eru fjölbreytt, t.d. hefur lífríki á jarðhitasvæðum aðlagast hita og lífríki á jöklum og heimskautum hefur aðlagast ís og kulda.

Líbreytileiki

Líffræðileg fjölbreytni eða einfaldlega lífbreytileiki, nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera sem til eru. Það er hægt að horfa á lífbreytileika á þrjá mismunandi vegu: lífbreytileika innan tegunda, milli tegunda og milli og innan vistkerfa.

Í fyrsta lagi eru einstaklingar af sömu tegund eru ólíkir. Horfðu yfir bekkinn þinn og skoðaðu bekkjarfélaga þína. Þó að þið séuð öll af sömu tegund (Homo sapiens) eruð þið flest mjög ólík. Það að þið séuð ekki öll alveg eins er hluti af lífbreytileikanum á Jörðinni. Í öðru lagi nær lífbreytileiki yfir allar þær fjölmörgu tegundir lífvera sem búa á Jörðinni. Í þriðja lagi eru allar lífverur hluti af sínu vistkerfi og lífbreytileiki nær einnig yfir breytileika milli vistkerfa. Lífbreytileiki er mikilvægur til að náttúran geti brugðist við breytingum, eins og þurrkum og sjúkdómum.

Eins og þið sjáið þá er lífbreytileiki svo miklu meira en bara fjöldi tegunda. Í hitabeltinu finnast mjög margar tegundir en við heimskautin finnast fáar tegundir í samanburði og það er eðlilegt ástand. Einföld heimskautavistkerfi eins og á Íslandi geta verið í mjög góðu ástandi og ekki æskilegt að þar sé bætt við fleiri tegundum.

Viðkvæmt jafnvægi

Í vistkerfum er viðkvæmt jafnvægi þar sem lífverur hafa þróast saman, sumar í mikilli samkeppni við aðrar tegundir og aðrar í lítilli samkeppni. Jafnvel litlar breytingar á þessu jafnvægi geta haft slæm áhrif á lífríkið. Dæmi um þetta er þegar maðurinn flytur tegundir á milli svæða. Sumar þessara tegunda á flakki, sem kallast ágengar framandi lífverur, geta valdið miklum skaða og dæmi um slíkar tegundir á Íslandi eru Alaskalúpína, minkur og spánarsnigill.

Þjónusta vistkefa

Vistkerfi í góðu ástandi veita okkur ákveðin gæði sem kalla má þjónustu. Þessi þjónusta vistkerfa nær til dæmis yfir fæðu, hreint loft, vatn, orkugjafa, efni í fötin okkar og húsaskjól. Öll þessi þjónusta vistkerfa skiptir miklu máli fyrir okkur.

Endurheimt vistkerfa

Eyðing gróðurs og jarðvegs er stór þáttur í aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, sem veldur loftslagshamförum.

En hvað er hægt að gera til að vernda lífbreytileika og sporna gegn loftslagshamförum?

Endurheimt vistkerfa, einnig kallað vistheimt er góð leið til að endurheimta búsvæði og lífbreytileika og tækla loftslagsmálin með því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi. En hvað er vistheimt?

Vistheimt er aðferð sem hjálpar hnignuðu eða skemmdu vistkerfi að ná bata og að koma náttúrulegum ferlum, eins og hringrásum vatns og næringarefna, aftur af stað. Þegar þessar hringrásir eru komnar í gang heldur vistkerfið sjálft áfram gróa. Dæmi um vistheimt eru endurheimt birkiskóga, endurheimt votlendis, endurheimt dýrastofna og endurheimt vistkerfa í fjöru og sjó.

Verkfærataska vistheimtar inniheldur fjölbreyttar aðgerðir því aðstæður eru mismunandi á hverjum stað. Aðalatriðið er að láta náttúruna sem mest um að lækna sig sjálfa. Stundum er nóg að friða svæðið gegn álagi, sem getur t.d verið ofbeit eða ofveiðar. Þannig fær vistkerfið tækifæri til að jafna sig. Ef friðun er ekki nóg þarf að finna hvað er að og stundum þarf að beita fleiri en einni aðferð. Dæmi um aðgerðir eru að eyða ágengum framandi tegundum, bera áburð á illa farið land t.d. húsdýraskít, moltu eða tilbúinn áburð, gróðursetja birki til að endurheimta birkiskóg eða grafa ofan í skurði til að endurheimta votlendi.

Á sama hátt og beinin okkar eru lengi að gróa eftir brot, getur það tekið mjög langan tíma fyrir skemmd eða röskuð vistkerfi að ná bata. Tími og þolinmæði skiptir því miklu máli. Þegar vistkerfi hefur náð bata getur það farið að veita aftur þjónustu vistkerfa.

Við getum öll haft áhrif

Verkefni

Verkefni þar sem nemendur læra um dýr sem eru falin í náttúrulegu umhverfi í nágrenni skólans eða á skólalóðinni. Verkefni fyrir 5-12 ára

Verkefni þar sem nemendur þjálfast í því að átta sig á fjölbreytileika plantna og nauðsynlegum skilyrðum svo þær geti vaxið og dafnað. Verkefni fyrir 5-12 ára

Að nemendur læri um ljóstillífun, þeir þjálfast að vinna í hóp og læra flókið hugtak í gegnum leik. Verkefni fyrir 7-12 ára

Náttúra til framtíðar fjallar um ýmisleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Vistheimt, er ein slík lausn.

Nemendur rannsaka lífbreytileika á litlu afmörkuðu svæði í nágrenni við eða á skólalóðinni. Einnig er fylgst með breytingum sem verða á svæðinu yfir skólaárið. Verkefni fyrir 5-12 ára

Í þessu verkefni læra nemendur um þjónustu vistkerfa og mikilvægi hennar fyrir okkur mannfólkið (og aðrar lífverur). Hægt er að hjálpa vistkerfi í slæmu ástandi að auka þjónustu þess með því að stunda vistheimt og endurheimta lífbreytileikann. Verkefni fyrir 10-13 ára

Í þessu verkefni fara nemendur í plöntuskoðun og læra að þekkja innlendar íslenskar plöntur í nágrenni skólans. Að auki læra nemendur að skilja mikilvægi plantna í íslenskri náttúru og að þekkja búsvæði þeirra og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa. Verkefni fyrir 10-20 ára

Í þessu verkefni fara nemendur í fuglaskoðun og læra að þekkja fugla og fuglahljóð í nágrenni skólans. Að auki læra nemendur að skilja mikilvægi fugla í íslenskri náttúru og að þekkja búsvæði þeirra og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara visterfa. Verkefni fyrir 10-20 ára

Verkefni um rostunga og vistheimt fyrir unglingastig og framhaldsskóla. Verkefnið er hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar

Hvaða fræ verða að trjám? Hvað er birkihnúðmý? Hér eru tilraunir úr smiðju Vistheimtar með skólum um spírun birkifræja.

Nemendur kynnast náttúrusvæði í nágrenni skólans, fara í heimsóknir á svæðið og gera þar fjölbreytt verkefni. Verkefni fyrir 4-10 ára

Í þessu verkefni eru gerðar tilraunir með sáningu birkifræja. Verkefnið hentar öllum aldri