Skip to main content

Verkefnið er hluti af námsefninu Náttúra til framtíðar fyrir unglingastig og framhaldsskóla og tilheyrir Vistheimt með skólum.

Verkefnalýsing:

Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli ykkar á birkiskógum og hvernig þið getið tekið þátt í því að endurheimta birkiskóga Íslands.

Áætlaður tími fyrir verkefni: Þetta verkefni tekur eins mikinn tíma og áhugi er fyrir og veður leyfir. Fræsöfnunin sjálf getur staðið yfir frá því fræin eru orðin þroskuð snemma á haustin og þangað til þau fara að detta af. Þetta er mislangur tími eftir árum og einnig er fræframleiðsla misjafnlega mikil milli ára. Hægt er að gera verkefnið einu sinni eða endurtaka árlega.

Fyrir hvern? Verkefnið er hugsað fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla en auðvelt er að aðlaga það að yngri nemendum líka.

Fræðsla: Birki þroskar yfirleitt mikið af fræi og reklunum er auðvelt að safna á haustin. Það er til mikils að vinna við endurheimt birkiskóga. Gróðurfar og dýralíf eykst og verður fjölbreyttara (aukinn lífbreytileiki), vatnsheldni jarðvegs verður meiri (kemur m.a. í veg fyrir aurskriður) og lækir myndast. Þar að auki verður kolefnisbinding í gróðri og jarðvegi og vistheimt er þannig loftslagsaðgerð. Fjölmargar tegundir af lífverum finnast í birkiskógum, t.d. gulvíðir, loðvíðir, blæösp, reyniviður, ýmsar botngróðursplöntur, fuglar, smádýr og sveppir.

Undirbúningur: Fyrsta skrefið í þessu verkefni er að finna birkitré í nágrenni skólans. Það má athuga með garða hjá fólki en nauðsynlegt að spyrja um leyfi fyrst. Í samráði við skólann, sveitarfélagið og jafnvel Landgræðsluna eða Skógræktina, finnið svæði í nágrenni skólans sem gæti hentað fyrir sáningu á birkifræjum og tilraunir. Munið að birkitré geta orðið ansi há og þau þurfa pláss. Skoðið www.birkiskogur.is til að finna upplýsingar, leiðbeiningar og myndbönd um fræsöfnun og dreifingu.

Verkefnavinna

  1. Kortlagning og gagnasöfnun
    Þið skulið kortleggja heppileg birkitré og fylgjast með fræframleiðslunni í nágrenni skólans í byrjun skólaárs að hausti. Fræreklarnir eru mjög áberandi og auðvelt að ná þeim af þegar fræin eru þroskuð.
  2. Sáning
    Sáið fræjum annað hvort strax eða þurrkið og geymið á köldum stað fram á vor og sáið þá. Merkið vel svæðið sem búið er að sá í og takið GPS hnit og merkið inn á kort. Þá er auðvelt að fylgjast með hvar er búið að sá og hvar má sá á næsta ári.
  3. Eftirlit
    Fylgist árlega með vexti plantnanna og stækkið sáningarsvæðið jafnt og þétt.
  4. Aukaverkefni i skólastofu.
    Skiptið ykkur í 3-4 manna hópa og gerið hópverkefni sem tengjast íslenskum birkiskógum. Hér koma nokkrar hugmyndir að viðfangsefnum og hver hópur kynnir niðurstöður sínar fyrir hinum í bekknum. Skila má verkefninu sem glærusýningu, myndbandi, viðtölum eða á öðru formi sem þið getið sýnt samnemendum ykkar.

Ljósmynd: Mynd af birki og birkifræi á Þingvöllum. Ólafur Einarsson