Skip to main content

Þegar landnemarnir komu til Íslands á níundu öld var stór hluti landsins vaxinn birki skógi en í dag þekja birkiskógar einungis 1,5% landsins. Meginástæðan fyrir því að við höfum tapað næstum öllum birkiskógunum okkar er ósjálfbær landnýting í gegnum aldirnar, m.a. skógarhögg, kolagerð og ofbeit.

Horfa

Lesa

Birkiskógar á Íslandi

Þegar landnemarnir komu til Íslands á níundu öld var stór hluti landsins vaxinn birki skógi en í dag þekja birkiskógar einungis 1,5% landsins. Meginástæðan fyrir því að við höfum tapað næstum öllum birkiskógunum okkar er ósjálfbær landnýting í gegnum aldirnar, m.a. skógarhögg, kolagerð og ofbeit. Áður en maðurinn kom til Íslands þoldu birkiskógarnir ágætlega erfitt veðurfarið og stór eldgos. Skógur er nefnilega það gróðursamfélag sem þolir hvað best öskufall eins og raunin var t.d. í Þórsmörk eftir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Frá síðustu ísöld er birki eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga og því eru birkiskógar einu náttúruskógar landsins.

Endurheimt birkiskóga

Til að endurheimta birkiskóg er ekki alltaf nóg að sá fræi eða planta trjám. Ef svæðið er mjög rofið eða örfoka þarf fyrst að búa til góðar aðstæður fyrir fræin svo þau spíri og nái að róta sig. Mikilvægt er að koma í veg fyrir mikla frostlyftingu, sem getur rifið í sundur viðkvæmar ræturnar, og það er hægt að gera með því að dreifa áburði og grasfræi. Gróðurhulan sem myndast við þessar aðgerðir hentar vel sem öruggt set fyrir fræ birkis og annarra tegunda. Síðan er hægt að gróðursetja birki, víði, reyni og jafnvel innlendar belgjurtir í litlar þyrpingar. Best er ef náttúran sjálf og vindurinn geti hjálpað til við að dreifa fræjum á milli þyrpinganna og stækkað þannig skóginn með sjálfgræðslu og með náttúrulegri framvindu.

Birki er gott fyrir loftslagið

Birki þroskar yfirleitt mikið af fræi. Fræið er í reklum sem auðvelt er að safna á haustin. Það er til mikils að vinna við endurheimt náttúruskóga. Gróðurfar og dýralíf eykst og verður fjölbreyttara (aukinn lífbreytileiki), vatnsheldni jarðvegs verður meiri (kemur m.a. í veg fyrir aurskriður) og lækir myndast. Þar að auki bindur jarðvegur og gróður kolefni þannig að endurheimt birkiskóga er því góð loftslagsaðgerð.

Lífbreytileiki í birkiskógum

Fjölmargar tegundir af lífverum finnast í birkiskógum, t.d. gulvíðir, loðvíðir, reyniviður, ýmsar botngróðursplöntur, fuglar, smádýr og sveppir. Plöntutegundir á válista sem finnast í birkiskógum eru m.a. engjakambjurt, glitrós, skógelfting, súrsmæra, blæösp, línarfi, eggjatvíblaðka og ferlaufungur. Í birkiskógum finnast einnig sjaldgæfar fléttur og allskonar gómsætir matsveppir eins og kantarellur og kóngsveppir. Með því að vernda birkiskógana er verið að vernda mikinn lífbreytileika.

Við getum öll haft áhrif

Verkefni fyrir leikskóla og yngsta stig grunnskóla

Plöntur þurfa ólík vaxtarskilyrði. Nemendur fá kort af skólalóðinni þar sem búið er að merkja inn helstu plöntur. Nemendurnir fara út, finna plönturnar og kanna aðstæður í kringum eina þeirra. Tilvalið að skoða birki í nágrenni skólans.

Verkefni þar sem farið er í reglulegar gönguferðir á grænt svæði í nágrenni skólans og fylgst með hvernig svæðið breytist eftir árstíðum. Hvernig breytist t.d. birkið?

Í þessu verkefni eru gerðar tilraunir með sáningu birkifræja.

Nemendur kynnast náttúrusvæði í nágrenni skólans, fara í heimsóknir á svæðið og gera þar fjölbreytt verkefni.

Í þessu verkefni er fylgst með vistkerfum og lífbreytileika í nágrenni skólans í yfir eitt ár.

Nemendur læra um ákveðin tré á skólalóðinni, skoða glærusýningu um tré og fara í leiki þar sem lært er um tré.

Nemendur þurrka laufblöð og læra um plöntur í nágrenni skólans.

Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli nemenda á innlendum íslenskum plöntum,búsvæðum þeirra og hve einstaklingar af sömu tegund geta verið ólíkir. Breytileiki innan tegunda er hluti af lífbreytileika.

Verkefni fyrir mið- og unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla

Í þessu verkefni læra nemendur um þjónustu vistkerfa og mikilvægi hennar fyrir mannfólkið og aðrar lífverur.

Í þessu verkefni taka nemendur land í fóstur og læra um mismunandi vistheimtaraðgerðir. Þau taka til aðgerða og fylgjast með árangri aðgerðanna. Að auki læra nemendur að skilja hvernig vistheimt tengist lífbreytileika og loftslagsmálunum.

Í þessu verkefni læra nemendur hversu gott meðal náttúran er við streitu. Útivist og tengsl við náttúruna draga úr streitu og auka vellíðan. Með því að eyða 20 mínútum í náttúrunni, hvort sem það er göngutúr eða að sitja í kyrrð, þá minnkar streita.

Tilgangur þessa verkefnis er að auka landlæsi nemenda, vekja athygli á birki og þeim tegundum sem búa í birkiskógum og hvernig nemendur geta tekið þátt í að endurheimta birkiskóga Íslands.

Í þessu verkefni er unnið með fræ af birki og öðrum íslenskum plöntum úr nágrenni skólans og gerðar tilraunir með spírun og vöxt við mismunandi aðstæður.

Í þessu verkefni er unnið með fræ af birki og öðrum íslenskum plöntum úr nágrenni skólans og gerðar tilraunir með spírun og vöxt við mismunandi aðstæður.

Verkefni sem fær nemendur til þess að átta sig á mikilvægi vistheimtar fræðast um svæði hafa verið grædd upp með vistheimtaraðferðum

Þó allar tegundir séu mikilvægar í náttúrulegum vistkerfum sínum hafa sumar tegundir meiri áhrif á vistkerfið en aðrar. Stundum eru þessi áhrif bein og stundum óbein. Þessar tegundir eru kallaðar lykiltegundir.

Maðurinn hefur nýtt sér náttúruna frá upphafi, enda er maðurinn hluti af náttúrunni. Vistkerfin veita okkur m.a. fæðu, skjól, hreint vatn, föt, áhöld og fleira. En hvað gerist ef við tökum of mikið?

Tilgangur þessa verkefnis er að vekja athygli ykkar á plöntum, búsvæðum þeirra og hve einstaklingar af sömu tegund geta verið ólíkir. Breytileiki innan tegunda er hluti af lífbreytileika.

Hlutverkaleikur þar sem nemendur setja sig í spor ýmissa hagsmunaaðila á náttúrusvæði sem er í hættu, t.d. birkiskógur.

Verkefni úr verkefnakistu sem auðvelt er að aðlaga að birki

Að fara í göngutúr er frábær skemmtun og býður upp á ýmsa möguleika. Það getur verið gaman að brjóta upp gönguna með leikjum eða gera rannsókn á umhverfinu.

Verkefni sem hefur það að markmiði að efla vitund nemenda um náttúruna með því að kanna boðskap í ljóðum og tónlist. Verkefni fyrir 5-16 ára

Verkefni sem fær nemendur til þess að skoða og ígrunda náttúruna. Nemendur taka ljósmyndir af náttúrufyrirbrigðum, túlka og deila með öðrum. Verkefni fyrir 10-20 ára

Nemendur fræðast um mismunandi búsvæði og lífverur innan þeirra. Valið er búsvæði einhverrar lífveru og fundinn staður innan þess. Nemendur telja upp einkenni og eiginleika lífverunnar og úr verður einhverskonar ljóð. Verkefnið fyrir 8-12 ára

Ítarefni

Horfa

Lífbreytileiki og vistheimt – afmælispakki Grænfánans í maí 2022

Uppruni birkisins á Skeiðarársandi staðfestur – innslag í Landanum 2017

Ótrúlegur vöxtur á eyðisandi – innslag í Landanum 2017

Lesa

Stöðvum jarðvegseyðingu, björgum framtíðinni – pistill eftir Tryggva Felixson

Birki á Íslandi – pistill eftir Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson

Leynilegt bandalag plantna – pistill eftir Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson 

Lífbreytileiki á mannamáli

Tap á lífbreytileika

Hvað er vistheimt?

Birkifræ – landssöfnun

Hekluskógaverkefnið

Áratugur endurheimtar vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum 2021-2030

Birkivist – Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld – áskoranir, leiðir og ávinningur