Grænfánaverkefnið: Áfangi fyrir framhaldsskóla

Undanfari: enginn

Áfangalýsing

Í áfanganum kynnast nemendur verkferlum þess umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein byggir á. Nemendur ganga þannig í gegnum sjö skref í átt að grænfána en þau eru eftirfarandi: 

1) að stofna umhverfisnefnd, 2) að meta stöðu umhverfismála, 3) að útbúa aðgerðaráætlun í umhverfismálum, 4) að sinna eftirliti og endurmati, 5) að búa til námsefni og tengja við aðalnámskrá, 6) að upplýsa og fá aðra með og 7) að semja umhverfissáttmála og umhverfisstefnu. Nemendur velja sér jafnframt þema til að vinna með af þeim þemum sem í boði eru innan verkefnisins.

Áfanginn verður í grunninn nemendastýrður. Kennari hefur utanumhald með áfanganum og kemur að honum sem leiðbeinandi og aðstoðarmaður en nemendur sjá fyrst og fremst um alla framkvæmd. Við áfangann verður hugtakið geta til aðgerða haft að leiðarljósi. Í getu til aðgerða er lýðræðislegum vinnubrögðum beitt í námi svo nemendur geti haft áhrif á hvernig, hvenær, hvar og hvað þeir læra. Einnig felst í því að virkja nemendur til aðgerða innan skólans eða síns nærsamfélags. Í áfanganum geta nemendur því beitt áhrifum sínum á aðgerðamiðaðan hátt í átt að aukinni sjálfbærni innan skólans og jafnvel nærsamfélags. Nemendur fá jafnframt dýpri innsýn inn í fjölmörg málefni sem tengjast sjálfbærni og umhverfismálum. 

Markmið

 • Að gefa nemenda tækifæri til að stýra umhverfisúrbótum innan skólans 
 • Að efla forystuhæfni nemenda til framtíðar
 • Að styrkja lýðræðisleg vinnubrögð 
 • Að nemandi fái innsýn í málefni sjálfbærni og umhverfismála
 • Að nemandi verði  virkur og ábyrgur borgari í umhverfi sínu
 • Að nemandi verði fær um að taka gagnrýna afstöðu gagnvart umhverfi, samfélagi, menningu og efnahagskerfi
 • Að nemandi öðlist skilning á Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna
 • Að nemandi öðlist skilning á sameiginlegri ábyrgð jarðarbúa á Jörðinni og íbúum hennar

Hæfniviðmið

Að námi loknu skal nemandi hafa hæfni til að: 

 • hafa forystu og frumkvæði á sviði umhverfismála
 • meta málefni sem tengjast sjálfbærni og umhverfismálum
 • gæta jafnréttis á öllum sviðum og temja sér ríka siðferðisvitund
 • meta upplýsingar um samfélagið, umhverfið og náttúruna
 • taka þátt í umræðum og rökstyðja mál sitt á málefnalegan hátt
 • virða skoðanir annarra og geta leyst verkefni í samvinnu við aðra

Námsmat

Símat, í því felast m.a. verkefni, nemendafyrirlestrar, markmiðssetning, framkvæmd og eftirfylgni markmiða og greinargerð send til Landverndar

Námsgögn

Á grænni grein – Leiðarvísir um framkvæmd verkefnisins Skólar á grænni grein, sjálfbærnimenntun og grunnþætti aðalnámskrár. Höfundur: Katrín Magnúsdóttir

Vistfræði og umhverfismál (valdir kaflar). Höfundur: Margrét Auðunsdóttir

Valdar greinar og annað ítarefni frá kennurum.

Efnisatriði

Sjálfbærni, sjálfbær þróun, umhverfisvernd, umhverfismál, umhverfisstjórnun, lýðræði, jafnrétti, mannréttindi, sköpun, heilsa, velferð, umhverfismál, neysla, úrgangur, orka, vatn, lýðheilsa, loftslagsbreytingar, lífbreytileiki, hnattrænt jafnrétti, náttúruvernd, vistheimt, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.