Skip to main content

Nemendur læra um vistspor og skoða sitt eigið vistspor. Í kjölfarið koma þeir með tillögur að því hvernig má minnka vistsporið og kynna þetta á skapandi hátt.

Aldur: 5-16 ára

Tími: 1-2 kennslustundir

Markmið:

  • Að nemendur átti sig betur á hvað vistspor er og geti séð leiðir til þess að minnka vistspor sitt
  • Að nemendur átti sig á mismunandi stærð vistspors eftir því hvar í heiminum þú býrð

Efni og áhöld: pakki utan af morgunkorni eða annan tilfallandi pappi, málning og skriffæri

Aðferð:

Eftirfarandi texti lesinn fyrir nemendur eða settur upp sem glærukynning.

Ef allir lifðu eins og Íslendingar myndum við þurfa að minnsta kosti 6 jarðir til þess að standa undir neyslu okkar. Munur á vistspori þjóða er mikill og endurspeglar ójöfnuð heimshluta. Á Norðurlöndunum er vistsporið frekar hátt á meðan það er undir meðaltali í mörgum löndum í Afríku og suður-Asíu. Meðal vistspor í heiminum í dag er 2,7 jarðir en þyrfti að vera 1,6 svo að allir hefðu jafnan aðgang að auðlindum.

Verkefnið

Stimplaðu fótsporin þín á pappa. Notast má við málningu, eða tússliti.

Tillögur að tveimur útfærslum

Þungt og létt spor

Nemendur búa til fótspor sín. Á annað fótsporið skrá þeir allt sem þeir gera sem eykur vistsporið og á hitt allt sem þeir ætla að gera til að minnka vistsporið sitt.

Þar og hér
Nemendur skoða lista yfir vistspor ríkja og velja sér eitt land sem hefur lítið vistspor til að bera saman við Ísland. Nemendur kynna sér lífsskilyrðin í viðkomandi landi og skrá á fótsporin 6 hugmyndir að því sem hægt er að gera á Íslandi til að minnka vistsporið. Hjá hinu fótsporinu eiga nemendur að reyna að finna eitt atriði sem getur minnkað vistspor ríkisins. Lista yfir vistspor ríkja í heiminum má skoða hér. 

Umræður

Ræðið saman við bekkjarfélagana um muninn á vistspori Íslendinga og íbúa í tilteknu landi sem hefur lágt vistspor (t.d. í löndum sunnan Sahara í Afríku). Hver er munurinn á því að finna lausnir sem Íslendingur eða sem íbúi í þessu landi?
Atriði eins og að labba í skólann eða kaupa notuð föt eru mjög líklega eitthvað sem margir nemendur nefna sem leið til þess að minnka vistsporið sitt.
Á það jafnt við Íslendinga og fólk í því landi sem nemendur völdu?
Hvað er hægt að læra af fólki sem er með lægra vistspor en við?
Af hverju ætli Íslendingar séu með mun hærra vistspor en önnur Evrópu lönd?
Hvaða ástæða heldur þú að sé fyrir því að þú átt að setja sex hugmyndir við eitt fótsporið en eina hugmynd við hitt?

Verkefnið er innblásið af verkefni sem unnið var í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri undir leiðsögn Jónu Bjargar Sveinsdóttur, sjá mynd með grein. Grunnskóli Borgarfjarðar eystri hefur verið á grænni grein frá árinu 2005 og hefur hlotið fimm grænfána fyrir menntun til sjálfbærni.