Skip to main content

Á dögunum hélt Menntateymi Landverndar glæsilega uppskeruhátíð í Listasafni Ísland. Á hátíðinni voru  veitt verðlaun í keppninni Umhverfisfréttafólk, auk þess mættu sigurvegarar síðasta árs sem sögðu frá reynslu sinni og Villi Neto var með skemmtilegt uppistand. 

Umhverfisfréttafólk er verkefni þar sem grunn- og framhaldsskólarnemar kynna sér ákveðið umhverfismál. Þeir fjalla um málefnið og miðla með fjölbreyttum hætti til almennings. Nemendur geta sent afurð sína í keppni sem Landvernd heldur á hverju vori. 

Í ár bárust að vanda glæsileg verkefni í keppnina, sem voru í senn fjölbreytt, fræðandi, skapandi og vekjandi. 

Fjölmiðladómnefnd valdi verkefni sem lentu í þremur efstu sætunum.  

Í framhaldsskólum sigruðu nemendur Menntaskólans á Akureyri, Sigfríður Birna, Sigrún Freygerður, Elías og Atli Þór með teiknimyndasögu sem kallast  Heimsmarkmiðshetjurnar og í grunnskólum sigruðu nemendur í Vogaskóla Marinó Máni, Alexander, Máni og Kristofer Nökkvi með myndina Stærsti fuglinn. 

Tækniskólinn fékk sérstaka viðurkenningu á hátíðinni fyrir dygga þátttöku í verkefninu, góðan árangur og gott samstarf. 

Hér getur þú kynnt þér hvaða verkefni voru í efstu sætum og rökstuðning dómnefndar. 

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju með vel unnin störf og einnig öllum þeim sem sendu verkefni í keppnina, þau voru öll unnin af miklum metnaði og ástríðu fyrir viðfangsefninu. 

Við hlökkum til að taka á móti nýjum verkefnum að ári.