Skip to main content

Aldur:  13-25 ára

Tími: Undirbúningur 6-10 kennslustundir, viðburðurinn nær yfir tvo daga

Markmið:

  • Að nemendur þjálfist í því að afla sér upplýsinga um náttúrutengd málefni
  • Að nemendur geti greint stöðu mála og útskýrt þær áskoranir sem skólinn, nærumhverfið og heimurinn stendur frammi fyrir m.t.t. málefnisins sem hann vann með
  • Að nemendur getið tekið rökstudda afstöðu til ofantalinna áskoranna bæði í nærumhverfinu og hnattrænt
  • Að nemendur geti komið með tillögur um hvernig megi bregðast við þeim áskorunum sem málefnið felur í sér innan skólans og í nærumhverfinu
  • Að  nemendur geti skipulagt og tekið þátt í aðgerðum sem fela í sér úrbætur á ofangreindum áskorunum innan skólans og í nærumhverfinu
  • Að nemendur geti útskýrt reynslu sína af þátttöku í þeim aðgerðum sem verkefnið felur í sér
  • Að nemendur geti áttað sig á gildi samábyrgðar og samvinnu í vinnu við áskoranir af þessu tagi

Framkvæmd:

Skipulagning

Viðfangsefnið er að skipuleggja sjálfbærnidaga fyrir unglingastig grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla. Um er að ræða tvo heila kennsludaga og sjá nemendur um að skipuleggja viðburði fyrir samnemendur sína, fá fyrirlesara, sýna kvikmyndir, hafa kynningarbása, vinnustofur, veggspjöld o.s.frv.

Nemendur velja sér málefni til að vinna með í verkefninu. Eftirfarandi eru dæmi um málefni sem vinna má með:

Vatn, orka, úrgangur, loftslagsbreytingar, lífbreytileiki, samgöngur, neysla, hnattrænt jafnrétti.

Nemendur skipta sér niður í smærri hópa sem heldur utan um ákveðin verkefni tengd viðburðinum. Hópurinn skilar jafnframt greinargerð þar sem fjallað er um það málefni sem hann vann með. Greinargerðin skal sýna fram á skilning á viðfangsefninu og þeim áskorunum sem skólinn, nærumhverfið og heimurinn allur stendur frammi fyrir innan málefnisins. Nemendur koma með tillögur að úrbótum á þessum áskorunum sem þeir geta stuðlað að innan skólans og í sínu nærumhverfi. Mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir þeim áskorunum sem umhverfið stendur frammi fyrir innan málefnisins og hvernig það tengist sjálfbærri þróun. Mikilvægt er að nemendur kynnist ýmsum hliðum málefnisins og myndi sér upplýsta skoðun á því. Einnig er mikilvægt að nemendur öðlist skilning á þeim ferlum og lögmálum sem gilda um málefnið enda „skilningur á þeim takmörkunum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar“ (Mennta- og menningarmálaráðuneytið: 2011).

Hlutverk kennara

Kennari gegnir hlutverki leiðbeinanda og verkstjóra í verkefninu. Hann finnur til tillögur að kennsluefni, vefsíðum, samtökum og öðru sem tengist þemunum sem í boði eru. Fyrirlestrar kennara skulu ekki fara fram innan kennslustunda, vilji kennari hafa innlögn um efnið skal hún vera á formi vendikennslu, þ.e. fyrirlestrar sem hægt er að sækja á netinu og nemendur hlusta á heima.

Hlutverk nemenda

Nemendur sjá um framkvæmd verkefnisins. Þeir vinna að mestu sjálfstætt undir handleiðslu kennara. Þeir viða að sér efni sem tengjast því málefni sem þeir völdu sér. Lesa sig til um það, skoða vefsíður tengdar verkefninu og hafa samband við aðila, s.s. samtök og stofnanir sem tengjast málefninu með einhverjum hætti. Öll vinna nemendanna miðar að því sameiginlega markmiði að setja saman dagskrá fyrir sjálfbærnidagana. Jafnframt skila nemendur greinargerð um málefnið sem þeir völdu sem sýna á fram á skilning á viðfangsefninu.

Tillaga að tímaáætlun:

Fyrsti tími – Kynning á verkefni

Kennari kynnir verkefnið og útskýrir til hvers er ætlast af nemendum. Kennari  kynnir jafnframt efni sem nemendur geta nýtt sér á námsneti. Nemendur skipta sér í hópa (3-4 saman) og velja sér málefni til að vinna með. Einn hópstjóri er valinn í hverjum hóp.

Annar og þriðji tími – Verkefnavinna

Nemendur afla sér upplýsinga og lesa sig til um það málefni sem þeir völdu sér, skoða vefsíður og hafa samband við aðila sem tengjast málefninu. Mikilvægt er að nemendur öðlist skýra sýn og skilning á málefninu sem þeir völdu sér.

Fjórði tími – Sameiginlegur vinnufundur

Nemendur kynna það málefni sem þeir völdu og útskýra í stuttu máli hvers þeir hafa orðið vísari um efnið. Hér gefst tími til umræðna og skipulagningar, þar sem hópar geta skipst á hugmyndum og vangaveltum.

Fimmti til sjöundi tími – Verkefnavinna

Nemendur halda áfram vinnu við verkefnið með það að markmiði að setja saman dagskrá sjálfbærnidaganna í samráði við kennara.

Áttundi tími – Sameiginlegur vinnufundur

Hver hópur gerir grein fyrir hvað hann hyggst bjóða upp á á sjálfbærnidögunum. Hér gefst tækifæri til umræðna og deilingu hugmynda á milli hópa. Í lok þessa dags á endanleg dagskrá að vera tilbúin.

Níundi til tíundi tími – Lokafrágangur

Hér fer fram lokafrágangur við skipulagningu sjálfbærnidaga.

Ellefti til tólfti tími – Sjálfbærnidagar

Síðustu tveir dagar þriðju vikunnar eru sjálfbærnidagarnir sjálfir. Nemendur sjá þar um allt utan umhald. Þeir eru til staðar fyrir gestafyrirlesara og aðra sem mæta og stýra þeim viðburðum sem í boði eru fyrir samnemendur sína.