Skip to main content

Nemendur læra um orku sem við notum í daglegu lífi og velta fyrir sér eigin orkunotkun.

Aldur: 4-10 ára

Tími: 2-4 kennslustundir

Markmið:

  • Að börn öðlist skilning á því að orkan sem við notum í daglegu lífi kemur frá náttúrunni
  • Að börn átti sig á því að með því að spara orku séu þau að hugsa um umhverfið
  • Að börn fái tækifæri til þess að hafa áhrif á orkunotkun í skólanum sínum

Aðferð:

Börnin fá fyrirmæli um að loka augunum og koma sér þægilega fyrir. Kennarinn biður nemendur og hugsa um tímann frá því þegar þau vöknuðu í morgun og þangað til þau komu í leikskólann/skólann.

Kennarinn biður börnin um að hugsa um allt sem þau/eða mamma og pabbi notuðu um morguninn sem knúið er áfram af rafmagni.

Börnin nota fingurna til þess að telja í hljóði (ca. 1 ½ mínúta). Börnin opna svo augun og skiptast á að segja töluna og jafnvel telja upp þá hluti sem þau notuðu.

Hér gætu nemendur nefnt hluti sem ekki ganga fyrir rafmagni og þá gefst tækifæri til þess að ræða það. Einnig er líklegt að nemendur telji upp mun færri hluti en þeir í raun nota, það er líka tækifæri til þess að ræða meira um hluti sem eru knúnir áfram af rafmagni en börnin átta sig ekki á.

Í kjölfarið er farið í umræður um rafmagn í leikskólanum/skólanum

Skoða í hvað við notum rafmagn hér í leikskólanum/skólanum?

Skoða hvaðan orkan kemur sem þarf til þess að við fáum rafmagn í húsin okkar og skólann?

Hér er tilvalið að ræða mismunandi aðferðir til raforku framleiðslu, sólarorka, vindorka, vatnsorka, o.s.frv. og leggja áherslu á að náttúran veitir okkur orkuna.

Ræða leiðir til að minnka orkunotkunina.

Útfærslur

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig er hægt að dýpka verkefnið eftir getu barnanna

Rafmagnslaus dagur

Nemendur kanna og upplifa hvernig lífið væri án rafmagns með því að hafa rafmagnslausan dag. Nemendur eru virkjaðir í að finna lausnir.

Nú og þá

Hægt er að bera saman líf okkar í dag og líf fólks á öldum áður með tilliti til orku. Taka viðtal við fólk sem man eftir lífi án rafmagns eða að kennarinn segi frá því þegar hann var á sama aldri og börnin.

Hér og þar
Bera saman líf okkar og líf fólks annars staðar í heiminum með tilliti til orku. Hér getur verið áhrifaríkt að sýna nemendum mynd af jörðinni þar sem sést hvar heimsálfurnar eru misupplýstar og ræða við börnin ástæðuna fyrir því.

Notum minna og minnum á
Börnin útbúi veggspjöld/minnismiða þar sem þau hvetja til minni orkunotkunar í skólanum.