Skip to main content

Maður og náttúra

Maðurinn hefur nýtt sér náttúruna frá upphafi, enda er maðurinn hluti af náttúrunni. Vistkerfin veita okkur ýmsa þjónustu m.a. fæðu, skjól, hreint vatn, föt, áhöld og fleira. Fram að iðnbyltingu, sem hófst síðla á 18. öld, voru maðurinn og náttúran að mestu í jafnvægi, auðlindirnar endurnýjuðust flestar þrátt fyrir að vera nýttar. Með öðrum orðum, nýting mannsins á auðlindum náttúrunnar var að miklu leyti sjálfbær. En þetta snerist við eftir iðnbyltinguna með gríðarlegri fólksfjölgun og aukinni framleiðslu. Ofveiði og ósjálfbær nýting mannsins á auðlindum hefur víða sett náttúruna út í horn, líka á Íslandi.

Þegar tekið er of mikið

Þegar maðurinn færir sig á ný svæði þá myndast oft átök eða núningur við villt dýr sem búa á svæðinu sem hefur yfirleitt neikvæð áhrif á alla, bæði fólk og lífríki. Ránfuglar og rándýr hafa oft lent illa í nýrri sambúð við fólk því þessi dýr keppa við manninn um æti. Lífverur sem eru verðmæt auðlind eða eru gómsætar á bragðið hafa einnig lent í hremmingum vegna komu mannsins. En fólk hér áður fyrr vissi ekki betur og hafði ekki hugmynd um að hægt væri að hafa svona mikil áhrif á lífríkið. Í dag ættum við að vita betur.

Geirfuglinn og hrun fiskistofna

Sem betur fer hefur bara ein íslensk fuglategund alfarið dáið út (sem vitað er um) en geirfuglinn er sársaukafull áminning um að slíkt getur sannarlega gerst. Síðustu fuglarnir voru drepnir í Eldey árið 1844 og geirfuglinn er útdauður á heimsvísu. Síldarárin 1867-1968 eru í miklum ævintýraljóma og hrun síldarstofnsins var mikið áfall fyrir þjóðina. En hrunið var ekki síður skelfilegt fyrir lífríkið sjálft sem var lengi að jafna sig. Íslenska kvótakerfinu var komið á á áttunda áratugnum til að vernda íslenska fiskistofna frá ofveiði.

Hvar eru öll villtu dýrin?

Þó mannkynið sé bara 0,01% af heildarmassa lífvera þá hefur mannkynið eytt 83% villtra dýra og helmingi allra plantna. Einungis 4% af lífmassa spendýra í heiminum eru villt dýr, hin 96% eru mannfólkið (36%) og húsdýr, aðallega nautgripir og svín (60%). (Guardian). Maðurinn hefur valdið gríðarlegu tapi á lífbreytileika í heiminum.

villt dýr og húsdýr landvernd.is Guardian tap á búsvæðum

Vistheimt á hafi og strandsvæðum

Hafið er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga en lítið hefur verið gert í vistheimt á hafi og strandsvæðum hingað til. Kvótakerfið var sett á til að koma í veg fyrir ofveiði á nytjastofnum en engin svæði í sjó hafa verið vernduð með friðlýsingu. Lítið er vitað um ástand lífvera í hafi sem eru ekki nýttar af manninum. Áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa 2021-2030 er gullið tækifæri fyrir Ísland til að bæta úr þeim málum.

Náttúra til framtíðar | 40318 | © Landvernd og Menntamálastofnun 2021 |