Keppnin 2023

Á ári hverju býðst ungu fólki í grunn- og framhaldsskólum að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar. Samkeppnin ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum.

Fjölmörg verkefni bárust í keppnina, voru þau af ólíkum toga og komu frá skólum víðsvegar af landinu.

Dómnefndina skipuðu Hólmfríður María Ragnhildardóttir blaðakona hjá Mbl, Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Lóa Pind leikstjóri og framleiðandi sjónvarpsþátta.

Ungir umhverfissinnar og Landssamtök íslenskra stúdenta veittu einnig sérstök verðlaun fyrir flokkinn Val unga fólksins. Í þeirri dómnefnd voru Bára Örk Melsted frá Ungum umhverfissinnum, Rannveig Klara Guðmundsdóttir frá Landsamtökum íslenskra stúdenta og Aníta Sóley Scheving frá sambandi íslenskra framhaldsskólanema

Vegleg verðlaun voru veitt m.a. peningaverðlaun, gjafakort og umhverfisvænar vörur.

Framhaldsskólar

Fyrsta sæti

Heimsmarkmiðshetjurnar

Smellið á myndina til þess að sjá myndasöguna

Sigfríður Birna, Sigrún Freygerður, Elías og Atli Þór

Menntaskólinn á Akureyri

Umsögn dómnefndar

Fréttaformið er ekki endilega það besta til að hvetja ungt (og eldra) fólk til aðgerða í loftslagsmálum. Því síður að þylja upp staðreyndir. Það sem skiptir máli er að lokka athygli okkar að málefninu OG halda athyglinni. Það tekst þeim sem standa að baki sigurliðinu. Þau taka stór heimsmarkmið, sjóða þau niður í teiknimyndasögubúning, þar sem hver mynd þjónar tilgangi, halda athygli lesandans og ná í einföldum söguþræði að skafa málskrúð og óþarfa af boðskapnum = að þegar eyðileggingin snertir líf og tilfinningar umhverfissóðans, þá fyrst tekur hann við sér. Þetta er ekkert flóknara. Við erum öll umhverfissóðar, bara mismiklir. Þangað til boðskapurinn nartar í okkar eigið hjarta. Svo fá þau aukaprik fyrir brilljant nöfn á umhverfishetjurnar – sérstaklega hann Þangbrand sem reynir að kristna okkur til náttúruverndar.

Annað sæti

Ljósmyndin – “We don’t care, do you?“

Umsögn dómnefndar

Skapandi gjörningur og kraftmikil nálgun á stórt og erfitt viðfangsefni á veraldarvísu. Myndin er einföld, afhjúpandi og sterk með marglaga skilaboð um neysluhyggjuna og vanmátt manneskjunnar gagnvart eigin breyskleika. Myndin fjallar um græðgi, sóun og ábyrgð og ábyrgðarleysi. Verkið er sláandi og hugvekjandi með djúpri hugsun og beittri sýn. Sannleikurinn berskjaldaður og einlægur. Verkið er listrænt og frumlegt og listamaðurinn sýnir áræði og sjálfstæði.

Þriðja sæti

Upplýsingabæklingur – Líf í vatni

Smellið á myndina til þess að sjá bæklinginn

Margrét Helga, Íris Björk og Helgi Már

Menntaskólinn á Akureyri

Umsögn dómnefndar

Smekkleg framsetning þar sem skilaboðum er komið til skila á einfaldan og skýran máta. Grafíkin er vel unnin, textinn er auðlesinn og áhorfandi á auðvelt með að meðtaka þær upplýsingar sem fram koma. Textinn sem kemur fram er jafnframt vel unninn og ber þess merki að nemendur kynntu sér málefnið til hlítar.

Grunnskólar

Fyrsta sæti

Stuttmynd – Stærsti fuglinn

Marinó Máni, Alexander, Máni og Kristofer Nökkvi.

Vogaskóli

Umsögn dómnefndar

Stuttmyndin tæpir á nær- og fjærumhverfinu hvað varðar umhverfismál. Það er vandlega er haldið í alla söguþræði. Handritið er vel hugsað á mismunandi tímaplönum og myndbandið skemmtilega unnið hvað varðar klippingar og uppbyggingu. Fróðleikurinn fylgir með en einlæg frásögn og reynslusaga um neyslusýkina ræður þó ferðinni. Húmorinn er svo með í farteskinu alla leið og gefur von og kraft. Fyrst og fremst skemmtilegt og vekjandi ferðalag og stærsta fuglinn eða versta varginn?

Annað sæti

Stuttmynd – Electronic waste

Oliwier Michal, Salvör Sól, Linda, Ólafur Hafsteinn

Grunnskóli Bolungarvíkur

Umsögn dómnefndar

Stuttmyndin tæpir á mörgum hliðum viðfangsefnsins, sem í daglegu lífi fær ekki mikla umfjöllun, þrátt fyrir mikilvægi. Myndin er allt í senn skapandi, fræðandi, kraftmikil og skemmtileg. Verkið vekur mann til umhugsunar og minnir á þann fórnarkostnað sem fylgir þægindum og sóun neysluhyggjunnar.  Nemendur sýndu leikgleði og beittu húmor til að vekja athygli á viðfangsefninu.

Þriðja sæti

TikTok reikningur – Björt framtíð

Sofia Lára, Sunna María, Hjördís, Írena Dúa

Laugalækjaskóli

Umsögn dómnefndar

Aldrei í veraldarsögunni hefur verið jafnstórt kynslóðabil í neyslu, lestri og skoðun á texta og myndefni. Áður hlammaði öll fjölskyldan sér saman í sófann fyrir framan Gettu betur á föstudagskvöldi, í dag er sófinn tómur og hver situr í sínu horni með sitt tæki og sinn miðil. Leiðin að heila unga fólksins er ekki í gegnum línulega dagskrá eða fágaða fréttamennsku – heldur stuttum, skýrum skilaboðum á þeirra heimavelli. Björt framtíð blandar saman eigin lífi, fróðleik og skíðaferð til að hvetja jafnaldra sína til dáða í umhverfismálum – á heimavelli unga fólksins, TikTok.

Val unga fólksins

 

Framhaldsskólar

Barnabókin – Ferðalag Bessa

Smellið á myndina til þess að sjá bókina

Viktoría Sól, Óttar Örn og Dagný

Menntaskólinn á Akureyri

Grunnskólar

Borðspilið – Leiðin að betri jörð

Þóranna Guðrún, Aníta Kaldal, Júlía Dís, Steinunn Ásta

Laugalækjarskóli

Taktu þátt á næsta ári!

Um leið og við óskum öllum vinningshöfum til hamingju með vel unnin verkefni þá má nefna að fjölmörg önnur frábær verkefni bárust í keppnina, þakkar Landvernd öllum fyrir þátttökuna.

Grunn- og framhaldsskólar geta skráð sig til leiks fyrir næstu önn.

Allt um verkefnið má finna hér