Skip to main content

Nemendur skoða hluti með kennara og velta fyrir sér hvaðan þeir koma, úr hverju þeir eru og ræða uppruna þeirra.

Aldur: 3-10 ára

Tími: 1 kennslustund, hægt að endurtaka með öðrum hlutum

Markmið: 

  • Að börn fái tilfinningu fyrir því að hlutir verði ekki bara til að sjálfum sér
  • Að börnin átti sig á því að Jörðin skaffar okkur allt það sem við þurfum

Aðferð:
Meðfylgjandi texti lesinn fyrir börnin, einfaldaður eftir þörfum.

„Allt sem við kaupum, borðum og notum kemur frá Jörðinni. Allt í kringum okkur, hefur Jörðin gefið okkur. 

Fötin sem við klæðumst, matinn sem við borðum, tölvuna á heimilinu, sjónvarpið, fjarstýringuna og lengi mætti áfram telja.

En hvernig litu heimili okkar á Íslandi út fyrir 100 árum síðan? Áttu afar okkar og ömmur jafn mikið dót?

Með aukinni tækni og framþróun í samfélaginu hafa kröfur okkar og tækifæri aukist mikið. Nú er til miklu meira af fötum, framandi matvælum og tækjum á heimilum Íslendinga í dag en áður.

Það er ekki svo langt síðan fólk þurfti að afla sér eigin matvæla, t.d. með því að veiða fisk í matinn eða mjólka kúnna á bænum. Föt voru unnin úr ull sem kom af kindunum af bænum og símar voru ekki einu sinni til á hinu hefðbundna heimili á Íslandi.

Því meira sem við kaupum því meira þarf að búa til og því meira sem við búum til því meira þurfum við að taka frá jörðinni. “

Gott er að vera með einfalda hluti sem börnin þekkja úr umhverfinu sínu t.d sími, borðspil, banani, plastflaska, sultukrukka, gömul flík, lestrarbók. Í raun koma flest allir hlutir til greina en mikilvægt að börnin tengi við þá hluti sem unnið er með.

Hlutirnir eru skoðaðir og og einn hlutur tekinn fyrir í einu.

Umræðuspurningar
Hvar fáum við hlutinn?
Hvaðan kemur hann upprunalega?
Er hann úr náttúrunni? (hér er líklegt að svarið sé nei ef um er ræða hlut sem framleiddur er í verksmiðju) Þá er gott að fara aftur í textann hér á undan og leggja áherslu á feitletruðu setninguna.
Leggið áherslu á að svarið nei er ekki rangt hjá barninu heldur er það rétt að hluturinn kemur úr verksmiðju en hluturinn er búinn til úr efnum sem koma frá náttúrunni á Jörðinni.
Er hluturinn nauðsynlegur fyrir okkur eða væri allt í lagi að hann væri ekki til?
Hér ræðst umræðan af þátttöku barnanna og þau geta tekið umræðurnar í allar áttir, það bætir verkefnið.