Skip to main content

Þó að við getum gert margt sjálf til að draga úr plastmengun þá verður plastvandinn seint leystur af einstaklingum. Stjórnvöld og fyrirtæki bera mikla ábyrgð og þau þurfa að hjálpa til.

Stutt lýsing

Nemendur fara út og tína rusl í 15 mínútur. Farið er heim í skóla með ruslið og það skoðað. Nemendur reyna að finna hvaðan ruslið kom og hafa samband við framleiðendur og/eða fyrirtæki sem seldu hlutinn.

Markmið
Að nemendur læri um ábyrgð fyrirtækja og stjórnvalda þegar kemur að því að leysa plastvandann.

Lykilspurningar
Hvaða plast finnum við utandyra?
Hvaðan kemur það?
Hvernig barst það hingað?
Hver framleiddi það? (Hver bjó það til?).
Þarf ekki að láta fólkið sem selur hlutina vita að þeir eru ekki á réttum stað?
Hver á að passa að plastið fari ekki út í náttúruna?
Hvað geta fyrirtæki gert til að minnka framleiðslu á plasti?

Hvernig ávörpum við fyrirtæki og stjórnvöld í bréfi?
Hvernig ávörpum við vini og fjölskyldu í bréfi?

Efni
Fjölnota hanskar, vettlingar eða sorptínur.
Fjölnota pokar.
Skráningablað (sjá t.d. bls. 4 í Finndu mig í fjöru frá Umhverfisstofnun). 
Flokkunartunnur.

Aðferð
Nemendur fara í plastkapphlaup í 15 mínútur og reyna að tína eins mikið af plasti og þeir geta. Þegar heim í stofu er komið, flokka nemendur plastið eftir gerð og uppruna (greining). Næsta skref er að gera eitthvað í því.

Útfærslur
Skrifa bréf til fyrirtækja
Nemendur skrifa bréf til þess fyrirtækis sem framleiðir/selur mest af því plasti sem þeir fundu. Nemendur geta bent fyrirtækinu á hvað það getur gert til að hjálpa hafinu og spurt hvað fyrirtækið sé að gera til að draga úr plastmengun í hafi. Það er ekki úr vegi að láta nokkrar umbúðir fylgja með sem sönnun. Í stað bréfpósts, má senda tölvupóst með myndum í viðhengi eða hafa samband við fyrirtækið á samfélagsmiðlum.

Leiðbeina sveitastjórnum/ráðamönnum
Nemendur skrifa bréf til sveitarstjórnar/stjórnvalda og segja frá niðurstöðum sínum  og benda á mikilvægi þess að vernda hafið. Nemendur geta bent á nokkrar lausnir sem þeim dettur í hug að geti gagnast þeim sem ráða. Nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar skoruðu á bæjarstjórn að bæta við flokkunartunnum á útivistarsvæði í hjarta Ólafsvíkur. 

Fara í heimsókn og bjóða upp á umhverfismat
Skipuleggja má heimsóknir þar sem nemendur framkvæma umhverfismat með fulltrúum fyrirtækja eða sveitarstjórna. Nemendur í nokkrum skólum á grænni grein hafa gert þetta með góðum árangri og hafa m.a. notast við gátlista frá Skólum á grænni grein.
Gátlisti um úrgang og neyslu fyrir leikskólabörn.
Gátlisti um úrgang og neyslu fyrir yngri nemendur grunnskóla. 
Gátlisti um úrgang og neyslu fyrir nemendur grunn- og framhaldsskóla. 

Ítarefni

Almennt um bréf. Ritunarvefurinn. Menntamálstofnun. 

 

Verkefnið fylgir námsefninu Hreint haf – plast á norðurslóðum eftir Margréti Hugadóttur sem kom út haustið 2021 á vegum Landverndar og Menntamálastofnunar.