Helstu upplýsingar um árlegu keppnina

Nemendur í verkefninu Umhverfisfréttafólk gefst tækifæri til þess að taka þátt í árlegri keppni Ungs umhverfisfréttafólks! Það er sannarlega til mikils að vinna.

Hvernig tek ég þátt?

Landvernd hefur umsjón með verkefninu en það er rekið í samstarfi við skóla í landinu. Þinn skóli þarf að vera skráður í verkefnið. Þegar nemandi er búinn að vinna sitt verkefni er því skilað í keppnina. Sérfræðingar innan Landverndar fara yfir öll verkefni sem berast og fara 10 – 15 stigahæstu verkefnin í undanúrslit. Dómnefnd skipuð reyndu fjölmiðlafólki velur síðan fyrsta, annað og þriðja sæti. Auk þess veita Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta sérstaka viðurkenningu sem nefnist Val unga fólksins.

Sigurvegarar eiga kost á því að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni Ungs umhverfisfréttafólks. 

 

Hvernig verkefnum má skila í keppnina?

Tekið er við öllum miðlunarafurðum í keppnina og eru engar kröfur gerðar um lengd, stærð eða gerð verkefnisins. Skila má fjölbreyttum verkefnum í keppnina!

 

Hvert og eitt verkefni er yfirfarið með fimm matsviðmið í huga:

  1. Uppbygging og gæði

  2. Sanngirni og hlutlægni

  3. Fróðleikur

  4. Frumleiki og sjálfstæði

  5. Miðlun

Auk matsviðmiðanna þurfa nemendur að tengja verkefni sín við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

 

Hvað er í verðlaun?

Það er breytilegt milli ára en sem dæmi um fyrri verðlaun má nefna peninga, rafhlaupahjól og fjölda gjafakorta í alls kyns skemmtilegar upplifanir. Verkefnastjóri spyr nemendur reglulega hvað þeir myndu vilja hafa í verðlaun og gerir sitt besta til að uppfylla óskir þeirra.

Markmið keppninnar

  • Keppnin veitir nemendum tækifæri til þess að prófa sig áfram í upplýsingamiðlun og láta ljós sitt skína. Verkefnastjóri aðstoðar áhugasama nemendur við að koma verkum sínum á framfæri og eftir keppnina geta fjölmörg tækifæri boðist.
  • Keppnin skapar tengingu á milli framhaldsskóla í landinu, þar sem nemendur keppa við nemendur úr öðrum skólum.
  • Keppnin skapar samfélaginu vettvang til þess að fylgjast með því sem ungt fólk er að gera í umhverfismálum.
  • Verkefnum komið á framfæri við helstu fjölmiðla landsins. Þannig er stuðlað að umræðu og kynningu á verkefnum Ungs umhverfisfréttafólks.