Náttúruvernd

Náttúruvernd snýst um verndun lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað.

Grunnþættir Aðalnámskrár: Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:  6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 7.Sjálfbær orka 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti 

Hvað er náttúruvernd?

Stutt svar:

Að standa vörð um lífbreytileika, jarðfræðilegar minjar, landslag, víðerni og náttúruminjar.

Lengra svar:

Náttúruvernd snýst um verndun lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað. Ýmsum aðferðum má beita við náttúruvernd en ein þeirra er friðlýsing land- og hafsvæða. Með því móti má vernda búsvæði lífvera eða sérstæðar jarðmyndanir, landslag eða víðerni.

Til hvers náttúruvernd?

Mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni og eru háðar henni um fæðu og búsvæði, vatn og loft. Því er náttúruvernd í grunninn nauðsynleg öllu lífi. Í umræðu um náttúruvernd er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að náttúran sem slík hefur ákveðið gildi, hún er ekki eingöngu til staðar svo við mannkynið getum nýtt hana heldur hefur hún einnig tilvistarrétt í sjálfri sér. Náttúran getur ekki talað fyrir sig sjálf, hún getur ekki sagt skoðun sína eða látið reyna á ákvarðanir fyrir dómstólum. Það er því mikilvægt að hún eigi sér málsvara þegar kemur að nýtingu auðlinda og röskun landssvæða, eins og t.d. náttúruverndarsamtök. Enn mikilvægara er að við Jarðarbúar sammælumst um að umgangast hana af virðingu og hófsemi og tökum skynsamlegar ákvarðanir í nýtingu auðlinda og röskun landsvæða okkur í hag.

Mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni

Hvað með náttúru Íslands?

Hvergi í heiminum er viðlíka fjölbreytni í jarðmyndunum sem mótast hafa af samspili elds og íss og á Íslandi. Við búum yfir tiltölulega hreinu lofti og vatni og á hálendinu er að finna víðerni sem eru óbyggð og að stórum hluta ósnortin af beinum athöfnum manna. Þó Ísland sé ekki tegundaauðugt land í samanburði við sambærileg svæði á öðrum breiddargráðum eða svæði sunnar á Jarðarkringlunni er tegundasamsetning sumra lífveruhópa hér einstök og hefur hún þróast í takt við náttúruöflin í árþúsundir. Íslensk náttúra er að sama skapi viðkvæm eins og alvarleg og langvarandi gróður- og jarðvegseyðing á landinu sannar. Gróður og jarðvegshula sem einu sinni er horfin jafnar sig seint. Dagur íslenskrar náttúru er 16. september, á fæðingardegi Ómars Ragnarssonar, en hann hefur barist ötullega fyrir hönd íslenskrar náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september

Af hverju er mikilvægt að vinna með náttúruvernd?

Ein forsenda þess að fólk virði náttúruna, verndi og taki skynsamlegar ákvarðanir varðandi nýtingu hennar, er að það kynnist náttúrunni og átti sig á mikilvægi hennar. Til að kynnast náttúrunni er mikilvægt að upplifa hana með því að dvelja í henni, njóta hennar og umgangast hana af virðingu. Ýmsar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að umgengni við náttúruna bæti bæði andlega og líkamlega heilsu. Það er því mikilvægt að byrja snemma að kynna nemendum náttúru landsins, bæði í heimabyggð og á fjarlægari svæðum.

Hvað getum við gert?

Leikskólar og yngri bekkir grunnskóla:

  • Fara í vettvangsferð í þjóðgarð og ræða við þjóðgarðsverði um náttúruvernd.
  • Fara í vettvangsferðir á náttúruleg svæði í nágrenni skólans.
  • Taka svæði í nágrenni skólans í fóstur.
  • Stuðla að vernd og hreinsun á náttúrulegum svæðum í samvinnu við nærsamfélagið.
  • Færa kennslu í sem flestum fögum út fyrir veggi skólans.
  • Gera útikennslustofu á náttúrulegu svæði í nágrenni skólans, helst með sem minnstum áhrifum á umhverfið.
  • Vinna með ljóð, skáldverk, þjóðsögur og ævintýri sem tengjast náttúrulegum svæðum í nærumhverfinu.
  • Vinna með vistkerfi á Íslandi, gróðurfar, dýralíf og örverur.

Eldri bekkir grunnskóla, framhaldsskólar, háskólar og vinnuskólar

  • Kynna sér mismunandi flokka friðlýsingar og skoða hvar slík svæði er að finna.
  • Fara í vettvangsferð í þjóðgarð eða á friðlýst svæði.
  • Kynna sér friðlýst svæði annars staðar í heiminum.
  • Fara í hlutverkaleik um náttúruvernd og nýtingu þar sem nemendur bregða sér í hlutverk mismunandi hagsmunaaðila sem tengjast nýtingu ákveðins landsvæðis.
  • Kynna sér náttúru Íslands, lífríki, víðáttu, jarðmyndanir o.fl.

Reynslusögur frá skólum

Í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri gerðu nemendur ljósmyndaverkefni í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð

Í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri unnu nemendur skólans saman ljósmyndaverkefni í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og átti hver hópur að finna myndefni í náttúrunni sem tengdist níu hugtökum sem nemendur og kennarar ákváðu í sameiningu. Sem dæmi um hugtök má nefna gleði, frelsi, kyrrð, auðlind og samspil manns og náttúru. Nemendur unnu myndirnar síðan í tölvu og útbjuggu myndasýningu sem kynnt var fyrir foreldrum og öðrum nemendum. Nemendur lögðu mikið á sig en þeir gengu um 17 kílómetra langa leið frá Húsavíkurheiði inn Loðmundarfjörð og tókust þannig á við umhverfið og náttúruna um leið og þeir öðluðust dýpri skilning á þeim hugtökum sem verkefnið tók til. Markmið verkefnisins var öðru fremur að nemendur fengju að upplifa og njóta þeirrar vellíðunar sem fylgir því að vera úti í náttúrunni. Verkefnið einkenndist jafnframt af samvinnu þvert á aldurshópa en samvinna ólíkra aðila er einmitt mikilvægur hluti af sjálfbærnimenntun. Þetta verkefni tengist grunnþáttunum sköpun, heilbrigði og velferð, jafnrétti og lýðræði og mannréttindi.

Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni þar sem kallað er eftir leiðsögn nemenda í umhverfis- og sjálfbærnimálum

Ljósmyndaverkefni Grunnskóla Borgarfjarðar eystri vann til verðlauna í verkefnasamkeppninni Varðliðar umhverfisins sem er samvinnuverkefni Landverndar, Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúruskóla Reykjavíkur. Samkeppnin hefur það að meginmarkmiði að kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar í umhverfis- og sjálfbærnimálum en hún er opin öllum nemendum í 5. – 10. bekk grunnskóla hér á landi. Auglýst er eftir verkefnum í byrjun árs ár hvert.

Heilsuleikskólinn Krókur sendi sveitarstjóra beiðni um að friða hraun í nágrenni skólans

Í nágrenni Heilsuleikskólans Króks í Grindavík er fallegt mosavaxið hraun. Á ferðum sínum um hraunið fundu börnin dal sem þau gáfu nafnið Kyrrðardal og hafa þau dvalið þar löngum stundum. Til stóð af hálfu bæjarins að byggja svæðið upp og voru áform um að reisa þar íbúabyggð. Börnin voru ekki sátt við það og ákváðu að senda sveitarstjóranum bréf með beiðni um að friða svæðið. Bæjarstjórinn brást við beiðninni og hefur dalurinn nú verið friðaður. Í ferðum í dalinn er lögð áhersla á heilsueflingu, umhverfislæsi og vernd náttúrunnar. Börnin fá tækifæri til að upplifa náttúruna eins og hún er og umgangast hana af virðingu. Þau læra að ganga og athafna sig í hrauni og mosa og kynnast því hvernig umhverfið breytist eftir árstíðum og veðurfari. Börnin eru jafnframt upplýst um mikilvægi óraskaðrar náttúru og vinna verkefni sem því tengjast. Dalurinn er nýttur við sem flest tækifæri, til dæmis hefur farið þar fram grænfánaafhending við mikinn fögnuð viðstaddra. Í þessu dæmi má sjá hvernig nemendur geta haft áhrif á gang mála í sínu nærumhverfi. Verkefnið fellur vel að grunnþættinum lýðræði og mannréttindi í aðalnámskrá og fellur einnig vel að skrefi sex að upplýsa og fá aðra með.

Í útinámi læra nemendur að virða og bera umhyggju fyrir náttúrunni

Fjöldi þátttökuskóla Skóla á grænni grein er með útikennslustofu við skólann. Yfirleitt er henni fundinn staður á náttúrulegu og lítt röskuðu svæði í nágrenni skólans, svo sem í skógum, mosavöxnu hrauni, við fjöru, í graslendi eða fjalllendi. Kennarar eru hvattir til að nýta sér útikennslustofuna sem mest og í sem flestum fögum. Víða á útinám sérstakan tíma í töflu dag hvern. Markmið og tilgangur með útinámi eru fjölbreytt en nemendur læra þar að virða og bera umhyggju fyrir náttúrunni, þeir verða læsari á hana og þjálfast í notkun allra skynfæra til að upplifa og njóta hennar. Nemendur kynnast náttúrunni, gróðri og dýralífi af eigin raun og með hreyfingu og útiveru öðlast þeir aukið þrek og þol og almenna vellíðan. Mikilvægt er að kynna nemendur fyrir svæðinu þar sem útikennslustofan er staðsett, náttúru þess og sögu og hjálpa þeim að finna til ábyrgðar í því að halda svæðinu óröskuðu og hreinu. Svæðið má kynna fyrir nærsamfélaginu, og jafnvel byggja upp í samvinnu við það, þannig að sem flestir nýti sér það og beri virðingu fyrir því. Útikennslustofa fellur vel að öllum þemum Skóla á grænni grein.