Lífbreytileiki

Þróun lífs á jörðinni hefur tekið milljónir ára. Á þessum tíma hafa orðið til ótal tegundir lífvera sem eru hver annarri háðar um næringu, búsvæði og fleira. Með því að gæta að lífbreytileika jarðar, styðjum við vistkerfi og hringrásir jarðarinnar sem veita okkur loft, vatn, fæðu og fleira. Lífbreytileiki er eitt af þemum Skóla á grænni grein.

Grunnþættir Aðalnámskrár: Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:  8.Góð atvinna og hagvöxtur11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti 

Hvað er lífbreytileiki (e. biodiversity, biological diversity)?

Stutt svar:

Fjölbreytni lífvera, lífsamfélaga og erfðaefnis hér á jörðu. Þróun lífs á jörðinni hefur tekið milljónir ára. Á þessum tíma hafa orðið til ótal tegundir lífvera sem eru hver annarri háðar um næringu, búsvæði og fleira. Með því að gæta að lífbreytileika jarðar, styðjum við vistkerfi og hringrásir jarðarinnar sem veita okkur loft, vatn, fæðu og fleira.

Lengra svar:

Þróun lífs hér á Jörð hefur tekið milljónir ára. Á þessum milljónum ára hafa orðið til ótal tegundir lífvera sem mynda samhangandi lífkerfi. Allar þessar lífverur, lífform og lífsamfélög eru hluti af lífbreytileika Jarðarinnar. Lífbreytileiki, eða líffræðileg fjölbreytni, tekur þannig til fjölbreytileika allra lífverutegunda Jarðarinnar, þ.e. plantna, dýra, sveppa og örvera. Hann tekur einnig til erfðabreytileika innan og meðal þeirra sem og fjölbreytileika vistkerfa og samspils lífvera innan þeirra. Vistkerfi eru samfélög plantna, dýra, sveppa og örvera og samspil þeirra við umhverfi sitt. Vistkerfi mynda grundvöll þess að líf þrífist hér á Jörð.

Vistkerfi eru samfélög plantna, dýra, sveppa og örvera og samspil þeirra við umhverfi sitt

Af hverju er lífbreytileiki mikilvægur?

Þessi mikla fjölbreytni lífs er eitt af megineinkennum Jarðarinnar en ekki er vitað hvort líf sé að finna annars staðar í alheiminum. Allar tegundir eru öðrum háðar um næringu, búsvæði og fleiri þætti. Eins og aðrar tegundir er maðurinn hluti af þessari heild, við eigum nánast allt okkar undir lífbreytileikanum. Sem dæmi má nefna hráefni til iðnaðarframleiðslu, eldsneyti og lyf auk næringar og búsvæðis. Þá er ótalið hreint loft og hreint vatn en heilbrigð vistkerfi eru ein meginforsenda skilvirkrar hreinsunar vatns og lofts. Þessar afurðir vistkerfanna kallast vistkerfaþjónusta. Samspil lífvera innan vistkerfa er flókið og margbreytilegt og sé einn eða fleiri hlekkir teknir út getur það valdið röskun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir kerfið í heild. Það sama á við ef ný framandi tegund bætist við vistkerfi. Vistkerfi eru því viðkvæmar heildir fjölbreyttra lífvera sem mikilvægt er að vernda. Röskun á vistkerfum og hnignun lífbreytileika er talin hafa alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu mannkyns sem og annarra tegunda hér á Jörð.

Lífverur eru hver annarri háðar

Hvert er ástand lífbreytileika í heiminum?

Jörðin gengur nú í gegnum tímabil fjöldaútdauða lífvera, það sjötta sem vitað er um frá uppafi lífs og hið eina sem rekja má alfarið til umsvifa mannsins. Þar sem fjöldi tegunda í heiminum er ekki þekktur er erfitt meta hraða útdauðans með nokkurri nákvæmni en talið er að á bilinu 0,01 til 0,1% tegunda deyi út árlega. Ef við miðum við 8 milljónir tegunda alls eru þetta 800-8000 tegundir á ári (Mora, 2012)! Fjöldi tegunda er því í útrýmingarhættu, allt frá örverum til stærstu spendýra. Sem dæmi um spendýr í útrým- ingarhættu má nefna tígrisdýr, ljón, nashyrninga, górillur og órangútanapa svo nokkur séu nefnd. Talið er að aldrei fyrr í sögu lífsins hafi útdauði átt sér stað jafnhratt og nú og er það fyrst og fremst vegna umsvifa okkar mannanna. Það er því brýnt verkefni allra Jarðar- búa að koma í veg fyrir frekari hnignun lífbreytileika og röskun vistkerfa (WWF, 2016).

Jörðin gengur nú í gegnum tímabil fjöldaútdauða sem rekja má til umsvifa mannsins

Lífverum stafar ógn af manninum, fyrst og fremst vegna lifnaðarhátta okkar sem leiða af sér mikla mengun á lofti og legi, ofnýtingu auðlinda, eyðingu búsvæða, sem eru rudd í stórum stíl og nýtt til ræktarlands og útbreiðslu ágengra framandi tegunda, svo fátt eitt sé nefnt. Til dæmis fara tugir þúsunda ferkílómetra af regnskógum undir ræktarland á hverju ári sem hefur í för með sér hættu á útdauða fyrir gífurlegan fjölda tegunda. Talið er að um helming allra lífverutegunda sé að finna í regnskógum þrátt fyrir að þeir þekji aðeins um 5% þurrlendis Jarðar. Loftslagsbreytingar eru enn einn fylgifiskur þessara umsvifa og valda þær enn frekari hnignun vistkerfa. Kynding hagvaxtar og skammvinnur fjárhagslegur gróði vegur oft þyngra en vernd náttúrunnar og þar með lífbreytileiki. Það skýtur þó skökku við þar sem lífbreytileiki er ein af undirstöðum þess efnahagskerfis sem við þekkjum í dag og vernd hans því í raun nauðsynleg undirstaða hagvaxtar (WWF, 2016). Þó maðurinn nýti lífbreytileikann sér í hag er mikilvægt að muna að allt líf hefur tilvistarrétt óháð mönnum. Vernd þeirra auðlinda sem felast í lífbreytileika og óspilltri náttúru skiptir sköpum fyrir framtíð mannkyns og annarra lífvera. Því er um afar brýnt málefni að ræða.

Talið er að um helming allra lífverutegunda sé að finna í regnskógum sem eru ruddir undir ræktarland í stórum stíl

Allar lífverur hafa tilvistarrétt!

Hvað getum við gert?

Leikskólar og yngri bekkir grunnskóla:

  • Hafa náttúrulegt, óspillt, svæði á skólalóð og laða að fjölbreyttar dýrategundir, s.s. fugla og skordýr.
  • Koma upp skordýrahóteli á skólalóð.
  • Koma upp fuglahúsum á skólalóð.
  • Gefa smáfuglum á vetrum.
  • Fara í vettvangsferðir til að kanna dýra- og plöntulíf í nágrenni skólans.
  • Taka í fóstur svæði í nágrenni skólans.
  • Skoða mismunandi fæðukeðjur og ræða hvað gerist ef tegundir eru teknar út úr fæðukeðjunni.
  • Skoða mismunandi búsvæði dýra og plantna og ræða hvað gerist ef búsvæðin breytast, bæði hér á landi og annars staðar.
  • Vinna með vistkerfi á Íslandi, gróðurfar og dýralíf.
  • Fara í skordýrasafarí í nærumhverfi skólans.

Eldri bekkir grunnskóla, framhaldsskólar, háskólar og vinnuskólar

  • Skoða villtar plöntu- og dýrategundir á Íslandi sem hafa flust hingað af mannavöldum og hvaða áhrif þær hafa haft á íslenska náttúru.
  • Kynna sér íslenska náttúru eins og hún leit út við landnám, hvað hefur breyst og af hverju?
  • Kynna sér tegundir í útrýmingarhættu, bæði á Íslandi og á heimsvísu.
  • Kanna hvaða áhrif eyðilegging búsvæða af manna völdum hefur á lífverur.
  • Skoða samband hnignunar lífbreytileika og loftslagsbreytinga.
  • Kynna sér svæði í heiminum sem eru í hættu vegna athafna mannsins, s.s. regnskóga, kóralrif og heimskautasvæði. Hvaða áhrif hafa athafnir manna á svæðið og hver er ástæða þess að því er stofnað í hættu? Finna leiðir til úrbóta.
  • Kynna sér samtök sem vinna að varðveislu lífbreytileika, t.d. IUCN og WWF.

Reynslusögur úr skólum

Nemendur í Brúarskóla gerðu listrænt verkefni um fugla á Íslandi og búsvæði þeirra

Í Brúarskóla í Reykjavík unnu nemendur fjölda fjölbreyttra verkefna um fugla þegar þemað lífbreytileiki var tekið fyrir. Sem dæmi var unnið myndbandsverkefni um atferli og búsvæði fugla. Nemendur unnu í pörum, þvert á skólastig, þannig að í hverju pari var einn nemandi úr yngri bekkjardeildum og annar úr eldri bekkjardeildum skólans. Nemendur völdu sér fugl til að vinna með og fóru í vettvangsferðir og könnuðu búsvæði fuglsins ásamt atferli hans. Einnig öfluðu nemendur sér upplýsinga úr bókum og vefsíðum til að kynnast fuglinum betur. Nemendur útbjuggu svo líkan af fuglinum og búsvæði hans og endurnýttu þar eftir fremsta megni efni sem til hafði fallið í skólanum. Í kjölfarið gerðu nemendur fræðslumyndband um fuglinn þar sem búsvæði, útliti og atferli fuglsins var lýst ásamt fleiru. Nemendur höfðu auk þess val um að skila verkefninu á ensku. Um einstaklega lærdómsríkt verkefni var að ræða þar sem unnið var þvert á bekki og náms- greinar. Nemendur fengu ekki eingöngu að kynnast fuglum á Íslandi, búsvæði þeirra og atferli heldur kynntust þeir einnig myndbandagerð og unnu með efnið á skapandi hátt. Verkefnið tengist einnig þemanu náttúruvernd og grunnþættinum sköpun.

Nemendur gerðu líka spil sem fjallaði um útdauða tegunda

Í tengslum við þemað unnu nemendur einnig samvinnuverkefni þar sem þeir bjuggu til spil sem fjallaði um útdauða tegunda. Nemendur öfluðu sér upplýsinga um fjöldan allan af lífverutegundum sem dáið hafa út og útbjuggu eitt spjald fyrir hverja tegund. Á annari hlið spjaldsins var mynd af tegundinni, nafn og lýsing og á hinni hliðinni var ártalið, eða árabilið, þar sem talið var að tegundin hefði dáið út. Spilið gengur svo út á það að raða spjöldunum í rétta tímalínu, frá því að fyrsta tegundin deyr út og til þeirrar síðustu. Eins og í fyrra verkefninu er um fjölbreytt verkefni að ræða sem vinna má þvert á bæði bekki og námsgreinar. Verkefnið tengist einnig grunnþættinum sköpun.

Roots & Shoots virkjar ungt fólk í náttúru- og dýravernd

Roots & Shoots er alþjóðleg hreyfing sem snýr að því að virkja ungt fólk í náttúru- og dýravernd. Stofnandi verkefnisins er Dr. Jane Goodall, sem í áratugi hefur stundað rannsóknir á simpönsum. Hún er friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna og beitir nú kröftum sínum í vitundarvakningu um velferð náttúru og dýra. Roots & Shoots nær til þúsunda ungmenna í yfir 100 löndum og eflir þau og virkjar til að leggja sitt af mörkum við náttúru- og dýra- vernd. Landvernd er tengiliður Roots & Shoots hér á landi.

Öllum er frjálst að vinna verkefni í nafni Roots & Shoots. Verkefnin skulu þó vera skipulögð og unnin af ungu fólki en geta verið undir handleiðslu kennara eða annarra fullorðinna. Þau eiga að snúast um náttúru, dýr eða samfélag en vel skipulögð verkefni geta náð til allra þessara þátta. Dæmi um gott verkefni væri að hreinsa upp rusl á ákveðnu svæði en finna einnig út hvaðan ruslið kemur, hvert það fer og hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir að rusl safnist þarna saman. Fara í samstarf við stofnanir, sveitarfélagið og aðila sem koma að málinu, fá fyrirlestra og kynna svo niðurstöðurnar fyrir samnemendum, foreldrum og jafnvel nærsamfélaginu. Verkefni sem unnin eru innan Skóla á grænni grein falla vel að Roots & Shoots. Skólum sem hafa áhuga á að vinna slíkt verkefni er bent á að hafa samband við Landvernd.