1. Umhverfisnefnd

Umhverfisnefndin er hjarta grænfánastarfsins. Í henni sitja fulltrúar frá breiðum hópi nemenda og starfsmanna skólans t.d. einn til tveir nemendur úr hverjum árgangi, fulltrúi kennara og skólastjórnenda, matráður, ræstitæknir, húsvörður o.s.frv.

Mikilvægt er að nemendur myndi kjarna umhverfisnefndarinnar og stýri sem mest því sem fram fer, að sjálfsögðu með dyggri aðstoð starfsmanna í nefndinni. Sumir kjósa að hafa tvær umhverfisnefndir, nefnd nemenda annars vegar og nefnd starfsmanna hins vegar, og á það sérstaklega vel við í leikskólum.

Best er að fulltrúar nefndarinnar séu valdir með lýðræðislegum hætti. Þau sem hafa áhuga á að vera með geta þannig boðið sig fram og síðan er ýmist dregið um hverjir fá sæti í nefndinni eða kosið – það þarf samt að varast að um vinsældakosningu verði að ræða.

Hafa skal í huga

  • Var lýðræðislega kosið í umhverfisnefnd?
  • Samanstendur umhverfisnefndin ad beiðum hópi aðila sem koma að skólastarfinu?
  • Hafa nemendur mikið vægi í umhverfisnefndinni (t.d. sérstök umhverfisnefnd nemenda, eða a.m.k. helmingur meðlima umhverfisnefndar nemendur)?
  • Hefur verið fundað a.m.k. þrisvar sinnum á hvorri önn?

Umhverfisnefnd velur þema í samstarfi við samnemendur og starfsfólk. Unnið er að 1-2 þemum á hverju grænfánatímabili.