5. Námsefni og námskrá

Skólar á grænni grein leggja áherslu á að allir nemendur taki þátt í verkefnavinnu sem tengist með einhverjum hætti þeim þemum sem unnið er að hverju sinni.

Að allir vinni verkefni sem tengist þemanu

Mikilvægt er að allir nemendur og starfsfólk séu upplýst um hvaða þema skólinn er að vinna að hverju sinni. Í þessu skrefi skal tryggja að allir nemendur læri um þemað og vinni verkefni því tengdu.

Að þemað sé tekið inn í allar námsgreinar

Þverfagleg nálgun og fjölbreyttar aðferðir eru meðal helstu einkenna menntunar til sjálfbærni. Setja má stefnuna á að samþætta þemað við námsgreinar í skólanum.

Dæmi: Unnið er með þemað vatn.

  • Vinna má verkefni um vatn í flestum námsgreinum. Reikna meðal notkun vatns og sparnað, setja upp í myndrit.
  • Semja ljóð um vatn.
  • Læra um hringrás vatns og gera tilraunir með vatn.
  • Læra um mikilvægi vatns fyrir lífið á Jörðinni.
  • Læra um vatn á mörgum tungumálum.
  • Hvaðan kemur vatnið í skólann? Hvert fer það svo?
  • Hvaða vötn og ár eru í nágrenninu.

Menntun til sjálfbærni í skólanámskrá

Mælt er með því að menntun til sjálfbærni sé veitt rými innan skólanámskrár skólans. Gildi menntunar til sjálbærni skv. Eco Schools á heimsvísu eru:

  • Grenndarnám
  • Nemendamiðað nám
  • Valdefling og geta til aðgerða
  • Þverfagleg verkefni
  • Hnattræn vitund
  • Ígrundun og mat
  • Upplýsa og fræða aðra.

 

Menntun til sjálfbærni og aðalnámskrá

Grunnþættir menntunar skv. aðalnámskrá eru lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, jafnrétti, læsi, sköpun og sjálfbærni. Auðvelt er að vinna að þessum grunnþáttum í gegnum grænfánavinnuna.

Hvað er menntun til sjálfbærni?

Sjálfbærni snýst ekki bara um umhverfismál heldur eru jafnrétti, lýðræði, mannréttindi og velferð allra Jarðarbúa órjúfanlegur hluti af sjálfbærni.

Í raun og veru snýst þetta um að við lifum öll góðu lífi óháð því hvar á jörðinni og hvenær við erum fædd!

…og jörðin á svo sannarlega nóg af auðlindum til þess – og gott betur. Við þurfum bara að fara vel með þær og deila þeim með jafnari hætti.

Hafa skal í huga

  • Vita allir starfsmenn og nemendur hvaða þema skólinn er að vinna að?
  • Unnu nemendur í öllum bekkjum verkefni sem tengdust þemum og markmiðum grænfánans í skólanum?
  • Var vinna við grænfánann tengd markmiðum aðalnámskrár með einhverjum hætti?