4. Eftirlit og Endurmat

Mikilvægt er að skólar sinni reglulegu eftirliti og endurmati á því hvernig gengur og hvort að verið sé að fylgja aðgerðaáætlun og að uppfylla markmið.

Markmiðablað gott í eftirliti

Mælt er með því að setja markmið og áætlun um aðgerðir á markmiðablað. Gott er að geyma það á miðlægum stað og opna á hverjum umhverfisnefndarfundi.

Hvernig metum við hvernig markmiðum hefur verið náð?

Skoða þarf sérstaklega dálkinn mat. Hvernig á að meta hvort markmiði hafi verið náð? Stundum er notast við tölulegar upplýsingar:

Dæmi: Markmið um að minnka matarsóun. Matarsóun er mæld í kg í upphafi og svo er mælingin endurtekin í lok tímabils (t.d. hægt að mæla það sem fellur til per mann af ákveðnum rétti). Matarsóun er þá mæld í kílóum, eða grömmum.

Endurmat – markmið geta breyst 

Yfir tímabilið geta margar breytingar átt sér stað. Því er mikilvægt að skoða markmiðin og endurmeta þau reglulega. Eru markmiðin e.t.v. óraunsæ, eða of auðveld/erfið? Þá má gjarnan endurmeta þau og breyta eftir því sem þarf.

Tökum stöðuna reglulega

Staðan er endurmetin með reglubundnum hætti, t.d. á umhverfisnefndarfundum, og kannað hvernig vinna við hverja aðgerð gangi.

Sumar aðgerðir eru þess eðlis að vinna þarf að þeim yfir allt tímabilið, öðrum aðgerðum má ljúka á tiltölulega stuttum tíma. Ef í ljós kemur að illa gengur að ná fram ákveðnum aðgerðum eða markmiðum má endurmeta þau og setja ný eða breytt markmið eða aðgerðir í staðinn.

Hafa skal í huga

  • Fór fram stöðugt eftirlit á árangri á milli umhverfisnefndarfunda?
  • Var staðan tekin á umhverfisnefndarfundum þ.e. hvort að markmið hefðu náðst?
  • Voru sett ný markmið ef markmiðin náðust?

Hlutverk nemenda

Gott er að virkja nemendur í þessu skrefi. Sumir skólar hafa notað grænfánaspæjara, sem ganga um stofur og kanna málin.

 

Dæmi um hvernig má meta markmið – sjá dálk mat.