Markmiðssetning í Grænfánaverkefninu

Þegar umhverfisnefnd hefur metið stöðu umhverfismála í skólanum, t.d. með umhverfismatsgátlistum er tímabært að setja sér markmið. Hvað á að gera og hvernig?

Skólar á grænni grein eru hvattir til að nota þar til gerð markmiðablöð við vinnuna. Þau eru hönnuð til að styðja við vinnuna í skólanum og eiga að aðstoða við framvindu verkefnisins.

Eyðublaðið hjálpar til við utanumhald með markmiðunum. Mælt er með því að skilgreina nokkrar aðgerðir í átt að hverju markmiði til að gera sér skýrari grein fyrir hvað þarf að gera til að ná fram markmiðunum. Einnig er mikilvægt að setja sér tímaramma fyrir hverja aðgerð og ákveða ábyrga aðila sem sjá til þess að unnið sé að markmiðinu. Jafnframt þarf að huga að því hvernig meta skuli árangurinn. Mælst er til þess að skólar setji sér fimm til sex markmið fyrir hvert tímabil og uppfylli a.m.k. fjögur þeirra.

Gott er að miða við að markmiðin séu „SMART“ – eða

Skýr

Mælanleg

Aðgerðamiðuð (alvöru) – Nota sagnorð.

Raunveruleg

Tímasett

Dæmi um markmið innan þemans „neysla og úrgangur“ gæti verið „að takmarka þann úrgang sem fer frá skólanum“. Aðgerðirnar gætu þá t.d. verið „að halda utan um magn úrgangs sem frá skólanum fer“, „að flokka allan úrgang“ og „að molta sjálf lífrænan úrgang“.