Hvernig fer Grænfánaafhending fram?

Skólar sem hafa stigið skrefin sjö á fullnægjandi hátt og náð þeim markmiðum (a.m.k. fjórum af fimm til sex markmiðum) sem sett voru í upphafi tímabils verða þess heiðurs aðnjótandi að hljóta Grænfánann, Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning til skóla sem hafa unnið að umhverfismálum og menntun til sjálfbærni. Haldin er sérstök Grænfánaafhending og getur skólinn óskað eftir dagsetningu fyrir afhendingu á umsóknareyðublaðinu eða að úttekt lokinni í samráði við starfsmann menntateymis Landverndar.

Afhendingin sjálf

Skólinn sjálfur ákveður hvað gert er á afhendingardegi og boðar til afhendingar. Gaman er að gera sér dagamun í tilefni afhendingarinnar. Áhersla er lögð á að skólarnir bjóði upp á dagskrá í tilefni að afhendingu fánans. Tilvalið er að bjóða nemendum, starfsfólki, aðilum úr nærsamfélagi og þar sem það á við; foreldrum og nágranna skóla/leikskóla.

Nemendur taka við fánanum sem er dreginn að húni og viðurkenningarskjal er afhent fulltrúa starfsfólks. Hægt er að fá skilti í stað fána ef það hentar betur.

Dagskráin getur t.d. falið í sér:

Ræðu frá nemendum í umhverfisnefnd

Tónlistaratriði, eða samsöngur

Listrænn gjörningur

o.fl.

 

Fulltrúi Landverndar (starfsmenn, fulltrúar út stjórn, frá nærsamfélaginu, sveitarstjórn eða aðrir fulltrúar) afhendir fánann og segir nokkur orð í athöfninni. Þegar fáninn hefur verið dreginn að húni er litið svo á að nýtt tímabil hefst.