Umhverfisstjórnun í framhaldsskólum – einingabær áfangi

Framhaldsskólar geta boðið upp á áfanga í umhverfisstjórnun þar sem nemendur fara með umsjón grænfánastarfsins í skólanum.

Á framhaldsskólastigi er mælst til þess að nemendur sjái sem mest um framkvæmd verkefnisins innan skólans. Til að auðvelda framhaldsskólum framkvæmdina hefur verið þróaður sérstakur áfangi í kringum verkefnið. Öllum framhaldsskólum er frjálst að bjóða uppá áfangann og aðlaga að sínum skóla. Gögn sem tengjast áfanganum má finna hér á síðunni.

Í áfanganum læra nemendur að nýta sér verkferla umhverfisstjórnunarkerfis sem verkefnið Skólar á grænni grein byggir á. Nemendur ganga þannig í gegnum sjö skref í átt að grænfána en þau eru eftirfarandi:

  • að stofna umhverfisnefnd
  • að meta stöðu umhverfismála
  • að útbúa aðgerðaráætlun í umhverfismálum
  • að sinna eftirliti og endurmati
  • að búa til námsefni og tengja við aðalnámskrá og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (að hluta til í höndum kennara)
  • að upplýsa og fá aðra með
  • að semja umhverfissáttmála/ umhverfisstefnu.

Nemendur velja sér jafnframt þema til að vinna með af þeim þemum sem í boði eru innan verkefnisins.

Kennari heldur utan um áfangann og kemur að honum sem leiðbeinandi og aðstoðarmaður en nemendur sjá um framkvæmdina. Við áfangann er hugtakið geta til aðgerða haft að leiðarljósi. Í getu til aðgerða er lýðræðislegum vinnubrögðum beitt í námi svo nemendur geti haft áhrif á hvernig, hvenær, hvar og hvað þeir læra. Einnig felst í því að virkja nemendur til aðgerða innan skólans eða síns nærsamfélags.

Í áfanganum geta nemendur því beitt áhrifum sínum á aðgerðamiðaðan hátt í átt að aukinni sjálfbærni innan skólans og jafnvel nærsamfélags. Nemendur fá jafnframt dýpri innsýn inn í fjölmörg málefni sem tengjast sjálfbærni og umhverfismálum.

Vissir þættir geta verið þess eðlis að nemendur geta ekki séð alfarið um framkvæmd þeirra eða tekið ákvörðun um þá. Þess vegna er mikilvægt að umhverfisnefnd starfsmanna sé einnig starfandi við skólann sem tekur slík mál fyrir.

1. Umhverfisnefnd

Nemendur umhverfisstjórnunaráfangans skipa umhverfisnefnd skólans. Umhverfisnefndin heldur utan um vinnu í tengslum við verkefnið og sér til þess að skrefin sjö séu stigin innan skólans. Umhverfisnefndin velur einnig þau þemu sem skólinn vinnur með hverju sinni.

2. Mat á stöðu umhverfismála

Umhverfisnefndin sér um að meta stöðu umhverfismála t.d með hjálp gátlista.

3. Áætlun um aðgerðir og markmið

Niðurstöður umhverfismatsins eru notaðar til að setja skólanum markmið og greina hvaða aðgerðir þarf að gera til að ná fram þeim markmiðum. Gott er að nýta til þess markmiðssetningareyðublað. Þar eru m.a. skilgreindir ábyrgir aðilar og tímarammi fyrir hvert markmið. Gott er að skipuleggja þessa vinnu vel til að markmiðum og aðgerðum sé sinnt á markvissan hátt.

4. Eftirlit og endurmat

Nemendur umhverfisnefndarinnar sinna eftirliti og endurmati. Í því felst að sjá til þess að aðgerðum sé framfylgt.

5. Námsefni, tenging við Aðalnámskrá og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þessi liður er í höndum kennara en mikilvægt er að allir nemendur fái menntun um umhverfismál og sjálfbærni í öllum fögum.

6. Að upplýsa og fá aðra með

Nemendur eru virkir í upplýsingagjöf til samnemenda og skólasamfélagsins og eru hvatning til þess að gera vel í umhverfismálum. Hér er tilvalið að nota samfélagsmiðla.

7. Að semja umhverfissáttmála/ umhverfisstefnu.

Flestir framhaldsskólar eru með umhverfisstefnu, það er mikilvægt að nemendur í umhverfisnefnd séu meðvitaðir um hana og geti komið með tillögur að breytingum. Líkt og á yngri stigum í Grænfánaverkefninu getur verið gaman að fá umhverfisnefndina til þess að búa til slagorð/setningu/listaverk sem tengist því tímabili og þema sem unnið er með.

Áfangalýsing

Náms- og kennsluáætlun

Kynning á umhverfisstjórnun